Smári McCarthy, þingmaður Pírata, greinir frá því í færslu á Facebook að hann greindist með COVID-19 kórónuveiruna.
„Jæja. Það kom að því. Fyrir rúmri viku fór ég í sjálfskipaða sóttkví eftir að ég fór að fá hósta. Það kom á daginn í gær eftir prufu á föstudaginn að ég er búinn að vera með Covid-19 smit. Ég er þokkalega hress, einkennin mjög væg, hóstinn mestmegnis farinn og hitinn varð aldrei mikill,“ skrifar Smári.
Greinir hann frá því að hann sé kominn í tveggja vikna einangrun. Smári ætlar þó að reyna að sinna þingstörfum eftir bestu getu á meðan, í gegnum fjarfundi og símtöl.
Smári segist ekki vita hvar hann smitaðist og líklega muni hann aldrei vita það. „Smitrakningarteymið sendi á mig skjal og gaf mér viðmiðunardagsetningu eftir samtal, og það ætti að vera búið að hafa samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví eftir að hafa umgengist mig.“
Segir Smári að aðgerðir sem viðhafðar hafa verið á Alþingi í kjölfar kórónaveirufaraldurins leiði til þess að hans smit ætti ekki að hafa teljandi áhrif á starfsemina þar, en hann telur þó að smitum á Alþingi eigi eftir að fjölda þegar á líður.
Smári hrósar heilsugæslunni í Miðbæ, smitrakningateymi almannavarna og lækninum sem hringdi í hann til þess að færa honum fréttirnar af því að hann hefði greinst með veiruna. Segir hann allt þetta fólk, ásamt öðrum starfsmönnum heilbrigðiskerfisins, vera að vinna þrekvirki þessa dagana.
„Við erum öll í þessu saman. Nú reynir á að við fylgjum reglunum, reynum að minnka smit eins mikið og hægt er, og reynum að komast í gegnum þetta. Stöndum saman og komum út sterkari. Pís!“