Langflestir Íslendingar eru tilbúnir til þess að aðstoða þá 4000 Grindvíkinga sem margir eru á vergangi eftir að yfirvöld lýstu því yfir að bærinn væri á barmi eldgoss fyrir viku síðan. Flestir veita aðstoð án þess að nota það í auglýsingaskyni en aðrir nota meinta góðsemi til að koma sér á framfæri. Ekki eru þó öll fyrirtæki eða stofnanir á þeim nótunum að hjálpa fólkinu. Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, telur að um 300 fjölskyldur frá Grindavík eigi ekki í nein hús að venda.
„Við eigum gríðarlegan fjölda en samkvæmt skjali sem Rauði krossinn heldur utan um eru 303 fjölskyldur búnar að óska eftir aðstoð um að fá húsnæði og það fer ört fjölgandi í þeim hópi,“ sagði hann á Bylgjunni í gær og boðaði að Verkalýðsfélag Akraness myndi losa orlofshús sín og koma Grindvíkingum þar í skjól.
Margir einstaklingar hafa lagt sitt að mörkum. Fyrirtæki hafa líka gert sitt til að létta undir með fólki. Dæmi eru þú um annað og kvartaði kona frá Grindavæík undan því að áskriftadeild Morgunblaðsins heföi neitað að slá af reikningi mánaðarins. Vilhjálmur hundskammar banka og lífeyrissjóði fyrir að bregðast fólki í neyð.
„Mér hefði fundist eðlilegt að þarna hefði verið fryst allar greiðslur. Alveg sama hvort það hefði verið vextir eða verðbætur, á meðan að þetta ástand varir og sýna í verki að þetta fjármálakerfi hætti að sýna þetta miskunnarleysi …,“ sagði hann á Bylgjunni og vísar til þess að einhverjir bankanna hafa verið með sýndartilboð sem felur í sér að frysta vexti en leggja fullar verðbætur á höfuðstólinn. „Ég segi bara sveiattan við því að gera ekki betur en þetta,“ sagði hann á Bylgjunni.
Rólegt var yfir jarðskjálftasvæðinu við Grindavík í nótt. Enginn skjálfti reyndist vera yfir þremur að stærð. Alls mældust um 500 skjálftar. Mesta virknin hefur verið við Hagafell og Sundhnúkagígaröðina. Engan gosóróa er að merkja og því ekki vísbendingar um yfirvofandi gos. Jarðvísindamenn fullyrða þó með örfáum undantekningum að goss sé örugglega að vænta endeilt er um hvort það séu mínútur, klukkustundir, dagar, mánuðir eða lengra í gosið. Þá veit enginn hvar muni gjósa ef til kemur.