Lögreglu barst tilkynning í gærkvöldi vegna slasaðs manns í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögregla mætti á vettvang kom í ljós að maðurinn var mjög ölvaður og hafði honum verið bannað að fara inn á veitingastað til þess að sækja jakkann sinn.
Maðurinn var æstur og fór ekki að fyrirmælum lögreglu sem endaði með því að hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð til frekari viðræðna. Þar róaðist maðurinn og sagði lögreglu frá málsatvikum sem voru heldur óljós vegna þess hve ölvaður hann var. Að lokum var manninum sleppt úr haldi og hann hvattur til þess að fara heim til sín. Ekki leið á löngu þar til maðurinn barði aftur á dyr lögreglustöðvarinnar þar sem hann ræddi aftur við lögreglu. Í annað sinn var honum vísað út og sagt að fara til síns heima að hvílast. Maðurinn lét sér ekki segjast og settist á bílastæði fyrir utan lögreglustöðina. Því var ákveðið að vista manninn í fangageymslu sökum ástands þar sem hann gisti í nótt. Þá sinnti lögregla reglubundnu umferðareftirliti í borginni.