Helga Sif Andrésdóttir segir lögregluna nú lýsa eftir syni hennar, þrátt fyrir að hafa verið upplýst um að drengurinn sé hjá móður sinni.
Fyrr í dag lýsti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir 11 ára dreng og birti af honum ljósmyndir. Móðir drengsins, Helga Sif Andrésdóttir, skrifaði Facebook-færslu rétt í þessu þar sem hún segir að drengurinn hennar sé hjá sér og að lögreglan og barnavernd viti af því. Segir hún föðurinn með stöðu sakborning í ofbeldismáli gegn drengnum og hefur Mannlíf undir höndum gögn sem sýna fram á það.
Hatræm forræðisdeila
Samkvæmt heimildum Mannlífs snýst málið um harða forræðisbaráttu foreldranna sem eru bæði með forsjá yfir drengnum en hann er með lögheimili hjá föður sínum. Hann hafði verið hjá föður sínum frá 2. júlí 2022, eftir að hafa fengið barnið afhent með aðfarargerð á Barnaspítala Hringsins, en hefur nú dvalið hjá móðurinn frá því að systkini hans sóttu hann í skólann á leið í leikfimi í nóvember í fyrra, en móðirin segir að ástæðan hafi verið marblettir sem sáust á drengnum stuttu áður.
Þann 15. nóvember síðastliðinn kvað Umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur þann úrskurð að drengurinn skyldi vistaður á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í tvo mánuði, „til þess að raunhæft sé að koma drengnum til fullnægjandi meðferðar hjá læknum og kortleggja stuðningsþörf hans. Auk þess er tekið undir nauðsyn þess að kanna betur ásakanir um ofbeldi í garð drengsins,“ eins og það er orðað í úrskurðinum.
Mannlíf hefur undir höndum afstöðu ríkissaksóknara til kæru á hendur föður drengsins en móðirin sakar hann um ofbeldi gegn syni þeirra. Lögreglustjórinn á Vesturlandi hafði tekið þá ákvörðun að hætta rannsókn á meintu ofbeldi föðursins en niðurstaða ríkissaksóknara, að ígrunduðu máli, var að halda rannsókn á málinu áfram og felldi því út ákvörðun lögreglustjórans.
Búin að kæra Barnavernd Reykjavíkur
Segir móðirin í Facebook-færslunni að barnavernd hafi aldrei haft áhyggjur af börnum sínum í hennar umsjá, fyrr en Barnavernd Reykjavíkur tók við málið þeirra í vor. „Það að ég hætti að mæta með drenginn í lyfjagjöf á Barnaspítalanum, er ástæðan fyrir þessari leit,“ skrifaði Helga Sif og bætti við: „Ég hef neitað að gefa barnavernd upp nafnið á lækninum sem fylgir honum eftir, því ég vil ekki að gerð verði önnur aðför gegn barninu á heilbrigðisstofnun.“ Þá segir hún föður drengsins vera með stöðu sakbornings. „Faðir barnsins hefur stöðu sakbornings í tveimur sakamálum, fyrir ofbeldi gegn mér og drengnum. Barnavernd leysir þessa stöðu með því að vista drenginn á vistheimili í “allt að” tvo mánuði. Sem sagt, barnavernd getur þess vegna afhent föður barnið samstundis, eftir að búið er að handsama hann aftur.“
Segir Helga að drengurinn hennar eigi „mögulega íslandsmet í að hafa orðið fyrir mannréttindabrotum af hendi íslenska ríkisins.“
Í lok færslunnar segir hún lögmann sinn hafa sent inn kæru í dag á hendur starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur, meðal annars fyrir skjalafals.
Færslan
Færsluna má lesa í heild hér:
„Lögreglan er að lýsa eftir barninu mínu, sem barnavernd og lögregla eru upplýst um að er hjá mér. Barnavernd hefur aldrei haft áhyggjur af börnunum mínum í minni umsjá, fyrr en Barnavernd Reykjavíkur tók við málinu í vor. Það að ég hætti að mæta með drenginn í lyfjagjöf á Barnaspítalanum, er ástæðan fyrir þessari leit. Ég hef neitað að gefa barnavernd upp nafnið á lækninum sem fylgir honum eftir, því ég vil ekki að gerð verði önnur aðför gegn barninu á heilbrigðisstofnun. Faðir barnsins hefur stöðu sakbornings í tveimur sakamálum, fyrir ofbeldi gegn mér og drengnum. Barnavernd leysir þessa stöðu með því að vista drenginn á vistheimili í “allt að” tvo mánuði. Sem sagt, barnavernd getur þess vegna afhent föður barnið samstundis, eftir að búið er að handsama hann aftur. Á meðan virðist barnavernd ekki hafa neinar áhyggjur af dóttur minni sem er alfarið hjá mér og með toppmætingu og toppframmistöðu í Ásgarðsskóla, sem fer fram á netinu. Ég held að barnið mitt eigi mögulega íslandsmet í að hafa orðið fyrir mannréttindabrotum af hendi íslenska ríkisins. Lögmaður minn sendi inn kæru til lögreglu í dag, á hendur starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur, fyrir skjalafals meðal annars. Ráðgjafarnir sem eru með málið mitt eru tvær konur, nákvæmlega sömu konurnar og stóðu að aðförinni heima hjá Eddu Björk fyrir stuttu. Auk þeirra eru fleiri starfsmenn barnaverndar kærðir fyrir brot á hegningarlögum í málavinnslunni.“