Tölvu- og netþjónustufyrirtækið Snerpa hefur slitið viðskiptasambandi sínu við fjártæknifyrirtækið Rapyd. Fyrirtækið hefur hlotið harða gagnrýni eftir að Arik Shtilman, forstjóri Rapyd, sagði fyrir stuttu að allar aðgerðir Ísrael á Gaza væru réttlætanlegar vegna þess að markmiðið væri að uppræta Hamas-samtökin.
Þessi orð féllu í grýttann jarðveg hjá mörgum Íslendingum og hafa einhverjir hvatt íslensk fyrirtæki til að hætta í viðskiptum við Rapyd en fyrirtækið sér um færsluhirðingu fyrir stóran hluta fyrirtækja á Íslandi. Tölvu- og netþjónustufyrirtækið Snerpa gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem tilkynnt var um að fyrirtækið myndi slíta viðskiptasambandi sínu við Rapyd og vísaði fyrirtækið í orð forstjóra Rapyd. Þá hvetur Snerpa önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Ljóst er að ekki eru allir á sama máli og Snerpa en HSÍ tilkynnti stuttu eftir orð Arik Shtilman nýtt samstarfsverkefni við Rapyd og sagði formaður HSÍ í samtali við Mannlíf að ekki kæmi til greina að slíta því samstarfi.