Guðmundur Andri Thorsson furðar sig á hárri sekt fyrir það eitt að leggja öfugt.
Rithöfundurinn og varaþingmaðurinn Guðmundur Andri Thorsson segir frá því á Facebook að hann hefði farið í útgáfuhóf hjá Sigríðiði Hagalín í Tólf tónum á Skólavörðustígnum. Fann hann autt bílastæði og „smeygði“ bílnum í það og fór í hófið sem var að hans sögn „fjölmennt og skemmtilegt og lestur hennar á bókinni og frásögn af henni afar lofandi.“ En þegar Guðmundur Andri snéri aftur að bílnum eftir hið vel heppnaða útgáfuhóf, fann hann sektarmiða undir rúðuþurrkuna. „Á daginn kom að bíllinn sneri öfugt í stæðinu þarna á Skólavörðustígnum og sektin reyndist vera 10.000 krónur. Segi og skrifa.“ Af skrifum rithöfundarins að dæma er hann afar hissa á þessari sekt. „Það var eins og ég hefði vanhelgað kirkjurými, haft í frammi háreysti í jólamessunni, eyðilagt listaverk; gert eitthvað frámunalegt og óheyrilegt sem þyrfti harða og eftirminnilega refsingu … 10.000 krónur!“ Spyr hann svo að lokum: „Hver yrði sektin ef ég gerði nú raunverulega eitthvað af mér?“
Hér má sjá færsluna í heild sinni:
„Ég var að flýta mér í útgáfuhófið hennar Siggu Hagalín sem var í Tólf tónum, sá skyndilega autt bílastæði á Skólavörðustígnum og smeygði bílnum í það léttilega, skondraði svo léttur á fæti í hófið sem var fjölmennt og skemmtilegt og lestur hennar úr bókinni og frásögn af henni afar lofandi. Kom svo til baka og hafði þá fengið miða undir rúðuþurrkuna og hugsaði: nújæja. Á daginn kom að bíllinn sneri öfugt í stæðinu þarna á Skólavörðustígnum og sektin reyndist vera 10.000 krónur. Segi og skrifa. Fyrir bíl sem snýr öfugt í stæði þegar nálgast kvöld. Það var eins og ég hefði vanhelgað kirkjurými, haft í frammi háreysti í jólamessunni, eyðilagt listaverk; gert eitthvað frámunalegt og óheyrilegt sem þyrfti harða og eftirminnilega refsingu … 10.000 krónur! Hver yrði sektin ef ég gerði nú raunverulega eitthvað af mér?“