Starfsfólk utanríkisþjónustunnar vinnur nú á vöktum allan sólarhringinn og aðstoðar Íslendinga sem eru staddir erlendis við að komast heim.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
„Utanríkisþjónustan hefur staðið í ströngu frá því fyrir helgi við að aðstoða Íslendinga erlendis sem vilja komast heim og áfram er unnið á vöktum allan sólarhringinn,“ skrifar hann.
Utanríkisráðuneytið hefur undanfarið hvatt Íslendinga sem eru staddir erlendis til að skrá sig í gagnagrunn borgaraþjónustu vegna útbreiðslu COVID-19.
Rúmlega níu þúsund Íslendingar hafa skráð sig í gagnagrunninn. „Starfsfólk hefur aðstoðað um tvö þúsund manns í gegnum síma, Facebook skilaboð og tölvupóst síðan á laugardag,“ skrifar Guðlaugur og bendir Íslendingum í vanda erlendis á að hafa samband í gegnum Facebook utanríkisráðuneytisins, í gegnum netfangið [email protected] eða í neyðarsíma borgaraþjónustu 545-0112.