Þann 28. febrúar var embætti eins dómara við Hæstarétt Íslands auglýst af hálfu dómsmálaráðuneytisins og rann umsóknarfrestur út 16. mars. Skipað verður í embættið hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum.
Umsækjendur um embættið eru:
Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt
Jóhannes Sigurðsson, dómari við Landsrétt
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari
Sigurður Tómas Magnússon, dómari við Landsrétt
Vegna skyldleika við umsækjandann Jóhannes Sigurðsson hefur dómsmálaráðherra ákveðið að víkja sæti við meðferð þessa máls. Hefur forsætisráðuneytið þegar verið upplýst um það og þess farið á leit að forsætisráðherra hlutist til um að öðrum ráðherra verði falin meðferð málsins.