Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir tilkynningu Evrópusambandsins um 30 daga ferðabann vera „óskýra“.
Í gær var greint frá því að ESB hefur tekið ákvörðun um að loka ytri landamærum sínum fyrir ferðamönnum utan sambandsins fyrir ónauðsynlegum ferðalögum næstu 30 daga. Tilgangurinn er að reyna að draga úr útbreiðslu COVID-19.
Angela Merkel, kanslari Þýsklands, greindi frá þessu í gær. Bannið tók strax gildi en nær ekki til EFTA-ríkjanna, þar á meðal Íslands.
Guðlaugur greindi frá því að hann og dómsmálaráðherra hefðu komið því á framfæri við sendiherra Evrópusambandsins að þetta séu ekki vinnubrögð sem þau vilji sjá. „Við höfum komið því skýrt á framfæri,“ sagði Guðlaugur í morgunþætti Rásar 1 og Rásar 2 í dag.
Hann sagði forgangsmál hjá ráðuneytinu núna vera að takmarka þann skaða sem hlýst af öllu ferðabanni. „Við erum að gæta hagsmuna Íslands, eins og alltaf,“ sagði Guðlaugur sem á annan fund með sendiherra Evrópusambandsins í dag.
Hlusta á sérfræðinga
Guðlaugur sagði íslensk stjórnvöld hlusta á ráðleggingar sérfræðinga hvað aðgerðir vegna útbreiðslu COVID-19 varðar en ekki bregðast við pólitískum þrýstingi eins og sum önnur ríki. Hann sagði önnur lönd taka eftir vinnubrögðum Íslenskra stjórnvalda.
Guðlaugur skrifaði um þetta á Facebook í gær. Þar sagði hann m.a.: „Ég ræddi í dag í síma við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um áhrif tímabundins banns Bandaríkjastjórnar við ferðum ferðamanna af Schengen-svæðinu, sem nær einnig til íslenskra ríkisborgara. Í símtalinu hrósaði Pompeo aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að hefta útbreiðslu Covid-19-veirunnar”.