Kvenfangar á Hólmsheiði hafa lýst yfir óánægju sinni vegna aðgerða í tengslum við COVID-19 kórónuveiruna. Snýr óánægjan að því að engar konur fá reynslulausn, en 10-20 körlum er heimiluð reynslulausn fyrr en ella.
Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag.
„Það er að okkar mati mjög einkennilegt. Við erum nokkrar hérna sem sitjum inni fyrir væg neyslubrot, höfum hegðað okkur vel og eigum stutt eftir af okkar dómum. Á meðan eru karlar að fá reynslulausn sem eru inni fyrir alvarlegri brot og hafa auk þess gerst sekir um agabrot,“ segir kvenfangi í samtali við Fréttablaðið.
Páll Winkel fangelsismálastjóri vísar gagnrýninni á bug og segir ákvarðanir teknar óháð kyni.