Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Við erum öll Grýlur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Grýla er þekkt fyrir að ræna börnum og refsa. Matreiða fyrir jólaköttinn. Hún tekur einhliða ákvarðanir og lætur sig litlu varða ástæðu slæmrar hegðunar. Samkennd einkennir ekki hlutgervi Grýlu – eins og hún gerir öllu jafna manneskjuna, sem getur heyrt frásögn og sett sig í spor þess sem við á. Fallegur eiginleiki og hlýr, en getur hann gengið of langt? 

Við fáum dæmisögu um Siggu sem stígur fram í kastljósið og segir frá atviki sem henti hana. Hún talar umbúðalaust og ljósmyndirnar af henni sýna uppreyrðan handlegg. Sigga var bitin af grimmum hundi sem var bundinn fyrir utan verslun í hverfinu hennar. Ljótt sárið krafðist tafarlausrar aðhlynningar. Sigga lýsir árásinni og hvernig hún í kjölfarið eigi erfitt með að finna til öryggis í umhverfi sínu. Á Íslandi segja lög til um að lóga eigi dýrinu. Víti til varnaðar; hundar bíta fólk. Einhliða og átakanleg frásögn, og allir tilbúnir að hata hundinn – og jafnvel alla aðra hunda líka. 

Hjá Siggu var réttlætinu framfylgt. Hundinum var lógað og hræðsla Siggu sefuð. Fylgjendur fagna. 

Hundurinn hét Lappi, tveggja ára og tilheyrði fjögurra manna fjölskyldu. Hann var ljúfur hundur og vel metinn. Gekk prúður við hæl og gelti sjaldan. Hann hafði gaman af því að fylgja eigendum sínum hvert sem þeir fóru. Hinn afdrifaríka dag hafði Lappi fylgt yngsta meðlimi fjölskyldunnar í búðarferð. Hann var bundinn við staur og sagt að bíða, þegar ókunnug kona kom aðvífandi. Hún var hávær og óþarflega upptekin af honum, hún fór að atast í ólinni hans. Hún lyktaði af áfengi. Eigandinn kom út og konan fór að hrópa að honum og gera sig breiða. Eigandanum var brugðið. Lappa var nóg boðið og beit frá sér. 

Nú má spyrja sig að því hvort pistlahöfundur sé uppvís að þolendaskömm. Er verið að taka upp hanskann fyrir gerandann? Sigga getur ekki hugsanlega hafa látið hundinn bíta sig, ekki stóð hún og bað um að vera bitin. Það að saga gerenda fylgi með frásögn Siggu, veikir hana ekki, heldur kastar betri sýn á atvikið. Fylgjendur geta þar með mótað sér betri afstöðu, telji þeir sig þurfa að taka hana, og lært af biturri reynslu Siggu. Kannski væri nær að taka sveig fram hjá bundnum hundi sem situr einn, í stað þess að mála alla hunda svarta og láta lóga þeim? Það er auðvelt að sýna Siggu samkennd eftir árásina, en jafnframt er á ábyrgð okkar allra að muna að; sjaldan veldur einn þá tveir deila.  

Við höfum öll gelt, glefsað og bitið frá okkur þegar við höfum talið okkur vera í ógnvekjandi aðstæðum eða þegar okkur þótti að okkur vegið. Var það rétt af okkur; að einhverju leyti skiljanlegt eða ætti kannski að lóga okkur?

- Auglýsing -

*Frjálst er að lesa pistilinn aftur og skipta út orðinu hundur fyrir eitthvert annað orð.


Lestu þennan pistil og fleira fróðlegt efni í nýjasta tölublaði Mannlífs:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -