Samkomubann hér á landi tók gildi á miðnætti og verður í gildi næstu fjórar vikur. Það þýðir að samkomur þar sem fleiri en 100 koma sama eru bannaðar. Líkamsræktarstöðvar landsins hafa gripið til ýmissa ráðstafana vegna útbreiðslu COVID-19 og samkomubannsins.
Stöðvar World Class verða áfram opnar og opnunartími helst óbreyttur en hámarksfjöldi í hóptímasali verður lækkaður um 50%. Viðskiptavinir eru þá beðnir um að halda tveggja metra fjarlægð við hvorn annan. Eins eru viðskiptavinir World Class beðnir um að deila ekki búnaði með öðrum og sótthreinsa áhöld og búnað eftir notkun.
„Við aukum rými milli iðkenda og verður því einungis annað hvert upphitunartæki í boði,” segir í tilkynningu World Class.
Hreyfing verður áfram opin en frá og með deginum í dag hefur hámarksfjöldi í hóptímum verið lækkaður um helming og viðskiptavinir eru minntir á að halda tveggja metra fjarlægð frá hvorum öðrum.
Á vef Hreyfingar segir að sótthreinsun og hreinlæti hafi verið tekið föstum tökum sem aldrei fyrr.
Líkamsræktarstöðin Reebok Fitness verður lokuð á meðan á samkomubanninu stendur. Á vef Reebok Fitness segir að ákvörðunin hafi verið „þungbær” fyrir stjórnendur fyrirtækisins.
Sporthúsið verður áfram opið á meðan á samkomubanni stendur en þjónustan verður takmörkuð er fram kemur á vef stöðvarinnar.
„Til að geta veitt þessa takmörkuðu þjónustu höfum við gert talsverðar ráðstafanir sem geta reynt á þolinmæði okkar allra, meðal þess er að gefa hverjum viðskiptavini rúmt svigrúm (a.m.k. tvo metra á milli fólks) til að stunda æfingar. Á það við í öllum rýmum okkar.”
Þar segir að starfsfólk Sporthússins muni hafa eftirlit með fjölda fólks í hverju rými og að hámarksfjöldi á hverju svæði verði auglýstur hverju sinni. „Ef þú hefur svigrúm til þess að fara í sturtu heima, þá er það vel þegið,” segir á vef Sporthússins.