Lokaganga Skrefa Ferðafélags Íslands á Úlfarsfell var í gærkvöld. Eins og oft áður í haust var leynigestur með í för. Að þessu sinni var það ritstjórinn og rithöfundurinn Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem mætti með bók sína, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg, ævisaga Guðrúnar Jónsdóttur. Guðrún Skúladóttir varð fyrst til að lesa rétt í vísbendingarnar og svipta hulunni af leynigestinum. Hún hlaut bók Ingibjargar Daggar að launum.
Á efsta tindi las Ingibjörg úr bók sinni við höfuðljós í svartamyrkri, áheyrendum til mikillar ánægju. Saga Guðrúnar Jónsdóttur er átakasaga einnar fremstu baráttukonu Íslendinga fyrir réttindum kvenna. Hún er einn af stofnendum Kvennaathvarfsins og sat í borgarstjórn fyrir Kvennalistann. Guðrún þykir ganga einstaklega nærri sér í bókinni og dregur ekkert undan. Bókin hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmennaverðlaunanna.
Göngurnar á miðvikudögum eru fastur liður á miðvikudögum. Fjöldi leynigesta hefur lagt leið sína á fjallið. Á meðal þeirra sem hafa mætt á fjallið í haust eru Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona, Sigmundur Ernir Rúnarsson rithöfundur, Elín Hirst rithöfundur, Geir Ólafsson, söngvari og tónleikahaldari og Þorgerður Katrín Gunnardóttir alþingismaður og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Nýtt verkefni, Tifað á tinda, hefur göngu sína í janúar. Skráning er í fullum gangi hér. Í janúar verður draugagangur á Úlfarsfelli á miðvikudögum þar sem draugasögur eða hrollvekjur verða sagðar á toppnum. Draugagöngurnar standa út janúar. Þær hefjast miðvikudaginn 10 janúar.
Höfundur er fararstjóri í Skrefum Ferðafélags Íslands.