„Þegar ég fékk þetta bréf varð ég snöggill. Samkvæmt bréfinu taldi stjórnin framgöngu mína álitshnekki fyrir fagið og ólíðandi. Siðanefnd félagsins hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri ósiðlegt athæfi að nefna biskup,“ segir Guðrún Jónsdóttir, baráttukona og fyrrverandi borgarfulltrúi, um atlögu Stéttarfélags félagsráðgjafa sem krafðist þess með bréfi að hún segði sig úr félaginu svo ekki þyrfti að reka hana. Þetta kemur fram í ævisögu hennar, Ég verð aldrei ungrú meðfærileg sem Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir skrifar.
Guðrún hafði tekið eindregna afstöðu með konunum sem báru Ólaf Skúlason þungum sökum um kynferðisbrot í Biskupsmálinu sem leiddi seinna til falls Ólafs af biskupsstóli. Guðrún varð fjúkandi reið þegar hún fékk bréf stéttarfélagsins.
„En ég varð svo yfir mig reið þegar ég sá þetta andskotans bréf að ég settist strax niður
við að skrifa svarbréf. Sjálfsagt hef ég ausið úr mér svívirðingum, því það heyrðist ekki meira frá félaginu. Ég stóð að því að stofna þetta argans félag ásamt þremur öðrum árið 1964, þannig að mér fannst það koma úr hörðustu átt að ráðast á vesalings gamalmennið og stofnandann …,“ segir Guðrún í bókinni.
Seinna kom á daginn að stjórnin virtist ekki hafa meirihluta fyrir kröfu sinni.
„Stjórnarskipti urðu ári síðar og þá fékk ég bréf frá nýju stjórninni þar sem mér var boðið á fund. Á fundinum var mér rétt hálf milljón króna og hrósað í bak og fyrir. Tónninn hafði heldur betur breyst því núvar ég sögð sómi stéttarinnar. Mér fannst fyndið að fá 500 þúsund krónur og fór upp í pontu til að þakka fyrir, en sagðist hafa góða fyrirvinnu, væri
sjálf á launum og ágætlega aflögufær, þannig að ég vildi fara fram á það við félagið að það færði Stígamótum þessa peninga beint, án þess að ég hefði aðkomu að því. Það var gert.“