Linda Benediktsdóttir, Linda Ben, uppskriftahöfundur sem rekur uppskriftasíðuna lindaben.is, er gift, tveggja barna móðir. Hún á gullfallegt heimili sem fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum þekkja og þar galdrar hún reglulega fram dýrindisrétti og köku- og tertuuppskriftir og deilir hún galdrinum á netinu svo fleiri geti notið. Auðvitað lumar hún á flottum uppskriftum fyrir jólin og áramótin.
Lítil stúlka elskar að baka með mömmu sinni og ömmu. Móðuramma hennar og -afi bjuggu á bóndabæ og var hún á sumrin mikið í eldhúsinu með ömmu sinni þegar hún var að elda og baka fyrir vinnufólkið. Og litla stúlkan bakaði bollur með ömmunni. Og náttúran heillaði. Gróðurinn. Dýrin. Linda Ben nefnir sérstaklega bananarúllutertu ömmu Dúu. „Ég man hvað ég elskaði að fá þá köku. Hún var líka mjög fljótgerð og amma og mamma hafa örugglega bakað þá köku af því að það tekur enga stund að baka hana þar sem ég bað mjög oft um að fá að baka. Þannig að sú kaka er sterk í minningunni.“
Hún segir að hún sjálf hafi verið mjög ung þegar hún bakaði í fyrsta skipti. „Ég man að ég hringdi oft í vinnuna til mömmu og spurði hvort ég mætti baka. Ég mátti það, en ég mátti ekki kveikja á ofninum fyrr en mamma kæmi heim. Ætli ég hafi ekki verið svona níu ára,“ segir Linda en viðtalið má lesa í heild sinni hér.