Mikil röskun var á flugi í gær vegna vinnustöðvunar flugumferðarstjóra. Önnur vinnustöðvun er boðuð klukkan 04:00 í nótt og mun standa yfir í sex klukkutíma. Daganna 18. og 20. desember hefur einnig verið boðað til vinnustöðvunar. Viðræður um nýjan samning í kjaradeilunni ganga illa að sögn sérfræðinga. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur ástandið slæmt.
„Þessar aðgerðir fara mjög illa í okkur. Öll truflun á flugsamgöngum hefur verulega raskandi áhrif á greinina og sérstaklega á flugfélögin. Röskunin gengur síðan niður keðjuna að einhverju leyti. Ef fólk tapar degi eða einhverju slíku þá hefur það veruleg fjárhagsleg áhrif, ekki bara á greinina heldur á samfélagið eins og hefur komið fram í nýlegri skýrslu um skattspor greinarinnar. Þetta eru rúmlega 400 milljónir á dag sem greinin er að skila inn til samfélagsins,“ sagði Jóhannes Þór við mbl.is en hann telur þó ekki að stjórnvöld eigi að stíga inn í deiluna strax.
„Ég held að það sé ekki tímabært að ræða það enn þá en það er algjörlega ljóst að verkföll á þessum stað í samfélaginu geta haft gríðarleg áhrif á afar stuttum tíma.“