Starfsfólki Hard Rock var bannað að borða hamborgara og franskar árið 2004. Jón Garðar Ögmundsson, framkvæmdastjóri Hard Rock, árið 2004 var ekki vinsæll hjá starfsfólki sínu. Skipaði hann svo um að hamborgarar og franskar yrðu teknir af matseðli starfsmanna og salöt og súpur settar í staðinn. Tilkynnti hann starfsfólkinu að þetta væri gert vegna þess að starfsfólkið væri of feitt. „Starfsfólkið átti að hætta að borða hamborgara og franskar. Það var vissulega hugsun á bakvið það, af því að það væri óhollt að borða svona mikið af hamborgurum. Hins vegar eru starfsmennirnir flestir þvengmjóar stúlkur á viðkvæmum aldri og það er ekki rétt að kalla þær feitar,“ sagði Svava Þorsteinsdóttir BS í hótel- og veitingastjórnun og fyrrum veitingastjóri á Hard Rock og Pizza Hut í samtali við DV um málið. Þá sagði DV frá því að blaðið hefði heimildir fyrir því að tugir kæra væru komnar á borð stéttarfélaga vegna kjarabrota staðarins. Ásamt því var sagt frá því að Jón Garðar hafi verið tilkynntur til stéttarfélags fyrir líkamsárás á starfsmann. Sátt náðist í málinu en Jón Garðar neitaði að hafa ráðist á manninn í samtali við DV heldur komið til orðaskaks. Starfsmaðurinn hafi verið rekinn vegna þess að hann hafi ekki sinnt starfinu með réttum hætti.