Tónlistarmaðurinn umdeildi Ingólfur Þórarinsson gaf út nýtt lag á dögunum en er þetta annað lagið sem hann gefur út á þessu ári. DV greindi fyrst frá og lagið er stuðningslag fyrir knattspyrnulið Breiðabliks og hefur heyrst undanfarið ár á Kópavogsvelli en lagið er komið út fyrst núna á streymisveitur. Lagið ber nafnið „Það er gott að búa í Kópavogi“ en það er vinsæll frasi Gunnars Birgissonar, fyrrum bæjarstjóra Kópavogs. Ingólfur var sjálfur í mörg ár knattspyrnumaður og spilaði mest með Selfossi en tónlistarmaðurinn ólst upp í sveitarfélaginu. Hann spilaði þó aldrei með Blikum. Ingólfur hefur verið mikill milli tannanna á fólki undanfarin ár en sumarið 2021 voru birtar 20 nafnlausar sögur af meintu ofbeldis Ingólfs. Í framhaldinu af því var tónlistarmanninum „slaufað“ en hann virðist hægt og rólega vera byggja upp tónlistarferilinn aftur ásamt því að fara í mál við fólk fyrir meiðyrði.