Ekki eru allir sammála um hvort að eldgosinu á Reykjanesi sé lokið. Magnea Óskarsdóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofunni, sagði í samtali við mbl.is að gosinu sé þannig séð lokið. Þessu er Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, ekki endilega sammála.
„Það eru ánægjuleg tíðindi að það skuli ekki vera mikil hraunframleiðsla upp úr þessari gígaröð, en vísindamenn hafa tekið það fram og nú síðast á fundi í morgun að það sé ekki gott að ráða í stöðuna og þetta geti tekið sig upp á nýjan leik. Það er engan veginn þannig að það sé hægt að lýsa yfir goslokum fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Við vonumst til þess að gosinu sé lokið en það þýðir ekki hægt að fagna því strax,“ sagði Fannar við mbl.is um málið.
Gosið hófst 18. desember í Sundhnúksgígaröðinni og hefur haft mikil áhrif á íbúa Grindavíkur en ljóst er þeir munu ekki fá að halda jól í bænum. Þá var tilkynnt í gær að húsnæðisstyrkur sem Grindvíkingur hefur verið veittur verður framlengdur yfir veturinn. Þá sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, að slíkur stuðningur væri mjög mikilvægur.