Hinn suðurkóreski leikari Lee Sun-kyun fannst látinn á miðvikudaginn.
Leikarinn er sagður hafa framið sjálfsvíg vegna lögreglurannsóknar á honum vegna eiturlyfjanotkunar en hann hafði verið yfirheyrður þrisvar sinnum út af því. Hann á að hafa játað notkun eiturlyfja en að hann hafi verið plataður til þess að neyta eiturlyfja og hafi í kjölfarið verið fjárkúgaður. Sem hluti af lögreglurannsókninni voru hársýni tekin af honum og rannsökuð en ekki fundust nein eiturlyf í þeim. Sun-kyun var síðast handtekinn 23. desember en honum var haldið í 19 klukkustundir áður en honum var sleppt aftur. Fíkniefnanotkun í Suður-Kóreu er litin alvarlegum augum og eru dæmi þess að leikarar hafi ekki átt afturkvæmt eftir að hafa verið fundnir sekir um slíkt þar í landi.
Lee Sun-kyun er þekktastur fyrir leik sinn í myndinni Parasite en hún vann til ferna Óskarsverðlauna árið 2020, meðal annars sem besta myndin.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.