Einn virtasti rannsóknarblaðamaður heims, John Pilger er látinn, 84 ára að aldri. Kristinn Hrafnsson minnist hans á Facebook.
Hinn margverðlaunaði ástralski rannsóknarblaðamaður John Pilger, sem var harður gagnrýnandi á „heimsvaldahyggju“ Vesturlanda, er látinn, 84 á að aldri. Þekktastur var hann fyrir fréttamennsku sína í Víetnamstríðinu, sem og fyrir heimildarmyndir sínar á borð við The War You Don´t See, Breaking the Silence: Truth and Lies in the War on Terror og Palestine is Still the Issue.
Fjölskylda Pilger sendi frá sér stutta tilkynningu í gær þar sem sagt var frá andláti hans en hann lést í Lundúnum.
„Blaðamennsku hans og heimildarmyndum var fagnað um allan heim, en fyrir fjölskyldu hans var hann einfaldlega hinn ótrúlegasti og elskaði pabbi, afi og félagi. Hvíldu í friði,“ segir í tilkynningunni.
Lætur hann eftir sig lífsförunaut sinn, blaðakonuna Yvonne Roberts og börn hans tvö, Sam og Zoe.
Þúsundir minntust Pilger á samfélagsmiðlum eftir fregnirnar.
„Heimurinn hefur misst einn sinn allra besta blaðamann og mann af fyllstu ráðvendi,“ skrifaði einn á X-inu.
„Frábær blaðamaður, góður maður og gríðarlegt afl, er nú fallið,“ skrifaði annar notandi miðilsins.
Þá minntist Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, John Pilger á Facebook í dag en þeir tveir voru félagar. Hér má lesa færslu Kristins: