Jón Gunnarsson brást ókvæða við orðum Katrínar Jakobsdóttur um orkuskiptin og vill nýjan ríkisstjórnarmeirihluta. Þetta kallar Björn Leví Gunnarsson, „svakalegt frekjukast.“
Björn Leví Gunnarsson Pírati skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann gerir grín að Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem kallar nú eftir nýjum ríkisstjórnarmeirihluta í kjölfar orða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um orkuskiptin. Sagðist hún ekki óttast orkuskort en að skilgreina þyrfti grunnorkuþörf. Segir Píratinn viðbrögðin „æðisleg“ en á kaldhæðin hátt, því skylda stjórnvalda sé að tryggja grunnorkuþörf en þegar forsætisráðherra bendi á „hið sjálfsagða (sem núverandi ríkisstjórn hefur auðvitað ekki gert enn sem komið er) þá fer þingmaður Sjálfstæðisflokksins í svona svakalegt frekjukast.“ Þá segir Björn Leví betra væri að fara í „frekjukast“ yfir því að enn hafi ríkisstjórnin ekki skilgreint og tryggt grunnorkuþörfina, heldur en að fát komi á menn yfir því að Katrín hafi þá skoðun að eitthvað þurfi að gera í málunum. „Svona er pólitíkin skrítin stundum,“ segir Björn Leví að lokum.