Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gekk nýársnótt vel fyrir sig og ekki hafi nein „stór mál“ komið á borð lögreglu. Einungis fjórir gistu fangageymslur í nótt sem verður að teljast lítið miðað við nýársnótt.
Segir lögeglan að skemmtanahald hafi farið að mestu leyti vel fram en mikið hafi verið um ölvun en aðstoða þurfti nokkra við að komast heim til sín.
Óskað var efir aðstöð lögreglu við að koma manni út úr partíi í miðbænum en einnig þurfti lögreglan að vísa manni úr anddyri fjölbýlishús þar sem hann hafði legið á dyrabjöllunni og haldið vöku fyrir íbúum. Þá voru þrír ökumenn handteknir í miðborginni og í Vesturbænum, vegna aksturs undir áhrifum áfengis en einn þeirra vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Aukreitist var tilkynnt um ungmenni inni á skemmtistað og dyraverði sem voru réttindalausir.
Í Kjóahrauni í Hafnarfirði kviknaði í bílskúr, stuttu eftir miðnætti. Þá var maður handtekinn í Hafnarfirði og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar.
Að lokum var maður í annarlegu ástandi vegna ölvunar og fíkniefna í Breiðholti en lögreglan handtók hann vegna vandræða á bar. Var hann vistaður í fangaklefa. Einnig þurfti að stilla til friðar í stigagangi fjölbýlishúss, þar sem slagsmál hafði brotist út.