Gestur Sjóarans er sjómaðurinn, kennarinn og fyrrum fangavörðurinn Böðvar Þorsteinsson.
Böðvar sigldi bæði á frakt- og fiskiskipum en í landi starfaði hann sem bæði kennari og um stund sem fangavörður á Litla-Hrauni. Böðvar á langan feril til sjós að baki og segir meðal annars frá því að hann hafi misst félaga þegar Dísarfellið sökk, en Valdi Víðátta sem var gestur síðasta þáttar lifði það slys af.
Hann líkir saman andlega álaginu sem fylgir því að vinna í barnaskóla annarsvegar og sem fangavörður hinsvegar og hans mat er að eftir skólaslitin þegar hann fór til starfa á Hrauninu hafi það verið eins og að komast í sunnudagaskóla.
Spurður út í nýlegar niðurstöður úr Pisa könnuninni segir hann að hann sé þannig þenkjandi að það megi gera athugasemdir við námskrá skólanna og þessháttar en fyrst þurfi að einblína á samfélagið og heimilin. Þegar hann var stjórnansi í barnaskóla telur hann að aðal slagur hans hafi verið heimilin og foreldrarnir. Hann bætir við að það hafi ekki verið allir en ansi margir. Sérstaklega hafi þetta verið snúið þegar kom að eineltismálum og þegar slík mál voru komin á það stig að foreldrarnir væru komnir í málið spurði hann sig að því hvort það væri ekki komið gott.