Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Afrek, agavandamál og dómgreindarleysi – Uppgjör íslenska knattspyrnuársins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú er knattspyrnuárinu 2023 lokið og því er um að gera að gera upp þá hluti sem stóðu upp úr á Íslandi í knattspyrnuheiminum.

Besta deild karla

Annað árið í röð var lítil spenna í deildinni og erfitt að sjá hverju auka fimm leikir hafa skilað öðru en auknu álagi á leikmenn og útþynntu móti. Víkingur var án nokkurs vafa langbesta lið landsins og vann liðið deildina og bikarkeppnina nokkuð auðveldlega. Mögulega var þetta besta lið sem hefur spilað á Íslandi. Því miður fyrir Víking voru tveir hlutir sem náðu að stela athygli fólks og munu sitja eftir í minni fólki frekar en spilamennska liðsins. Í fyrsta lagi náði Breiðblik því stórkostlega afreki að komast í riðlakeppni í Evrópukeppni fyrst karlaliða og í öðru lagi gerði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sig að athlægi í beinni sjónvarpsútsendingu þegar hann gjörsamlega missti stjórn á skapi sínu fyrir litlar sakir eftir leik við Breiðablik.

Besta deild kvenna

Valur og Breiðablik héldu uppteknum hætti og lentu í 1. og 2. sæti eins og þau hafa gert undanfarin ár og er erfitt að sjá að það muni breytast á næstunni. Liðin hafa árlega sogað til sín bestu leikmenn liða í 3. – 10. sæti og selt svo í atvinnumennsku 2-3 árum seinna. Mögulegt var að Þróttur gæti veitt þeim samkeppni á þessu ári en liðið hefur misst frábæran þjálfara og bestu leikmenn liðsins svo það er orðið ólíklegt. Þá varð Víkingur bikarmeistari en liðið var í næstefstu deild og verður að hrósa þeim fyrir frábæran árangur.

Íslenska karlalandsliðið

- Auglýsing -

Þvílíkt ár fyrir karlalandsliðið. Arnar Þór Viðarsson var rekinn snemma á árinu og hinn norski Åge Hareide fenginn í hans stað. Árangur Hareide hefur ekki verið neitt sérstakur en spilamennska liðsins var sýnilega betri en í tíð Arnars. Þá var Albert Guðmundsson kærður í sumar fyrir kynferðisbrot og er rannsókn málsins lokið en ekki liggur fyrir hvort hann verði ákærður. Meðan málið er í þessu farvegi má Albert ekki spila með landsliðinu. Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta landsleik í þrjú ár við mikinn fögnuð margra og alls ekki neinn fögnuð sumra og bætti markamet landsliðsins en Gylfi hefur nú skorað 27 mörk með íslenska landsliðinu.

Íslenska kvennalandsliðið

Þrátt fyrir sjö sigra, tvö jafntefli og fjögur töp er varla hægt að tala um gott gengi. Allir sigrarnir fyrir utan einn voru svokallaðir „skyldusigrar“ og var í raun himinn og haf milli Íslands og þeirra þjóða sem við reynum að bera okkur saman við þegar kemur að gæðum í spilamennsku. Þorsteinn Halldórsson var einnig gagnrýndur fyrir furðulegt liðsval og er líklegt að hann hafi bjargað starfi sínu með sigri á Danmörku í lok árs. Góðu fréttirnar eru þó þær að framtíðin virðist vera björt og er sérstaklega hægt að benda á Bryndísi Örnu Níelsdóttur og Fanneyju Ingu Birkisdóttur í þeim efnum en þær stigu báðar sín fyrstu skref með landsliðinu árið 2023.

- Auglýsing -

KSÍ

Eins leiðinlegt og það er þá verður einfaldlega segja að árið var skelfilegt fyrir KSÍ. Dómgreindarleysi og agavandamál eru hlutirnir sem koma upp í hugann þegar litið yfir árið sambandinu. Sú ákvörðun að reka Arnar Þór Viðarsson úr stöðu landsliðsþjálfara kom í sjálfu sér ekki á óvart en tímasetning þess var einfaldlega galin. Annað hvort hefði Arnar átt að vera rekinn árið 2022 eða í lok 2023, nema hann hefði náð að rétta skipið af. Svo er hægt að benda á þá ákvörðun stjórnar KSÍ að ætla að ganga til samningsgerðar við Åge Hareide um áframhaldandi samstarf en samningur hans rennur út í mars á þessu ári. En nú liggur fyrir að nýr formaður verður kosinn í febrúar og ætti það auðvitað að vera í hans höndum að taka þátt í að ákveða þau mál. Mesta skömmin er hins vegar þögn sambandsins þegar kemur að fyrirhuguðum leik liðsins við Ísrael. KSÍ hefur gefið það út að Ísland muni ekki leika við Rússland þar til það hættir innrás sinni í Úkraínu. Toppar KSÍ hafa neitað að tjá sig í hverju munurinn felst og þá hefur Guðni Bergsson formannsframbjóðandi sömuleiðis ekki svarað spurningum sem tengjast þessu máli.

Agavandamál komu reglulega á borð KSÍ í fyrra og því miður fyrir knattspyrnufólk tók sambandið illa eða hreinlega ekki á þeim hlutum.

Til að byrja með var Sigurður Gísli Snorrason dæmdur í bann í eitt keppnistímabil en hann spilaði með Aftureldingu og veðjaði á sama tíma á mörg hundruð leiki og þar á meðal leiki Aftureldingar. Í þeim leikjum hafði Sigurður hag á því að Afturelding myndi fá á sig mörk. Óhætt er að segja að hann hafi sloppið vel og má hann telja sig heppinn að hafa ekki fengið margra ára bann.

Jóhann Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, sakaði KSÍ um að mismuna liði hans og er erfitt að vera ósammála honum ef orð hans reynast rétt. En ljóst er að um stóra ásökun er að ræða og hefði KSÍ átt að dæma hann í bann eða hreinlega viðurkenna mismunun. Því miður vildi KSÍ ekki tjá sig um málið og þar við sat.

Eins og var ritað hér fyrir ofan missti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, algjörlega stjórn að skapi í sínu á viðtali eftir leik þar sem hann hraunaði yfir dómara leiksins með hætti sem ekki hefur sést áður hérlendis. Margir kölluðu eftir því að Arnar fengi 1-2 leikja bann en KSÍ refsaði Arnari ekki fyrir atvikið og Arnar baðst ekki afsökunar á því. Málið varð að svörtum bletti á Íslandsmótinu.

Þá var Nikola Dejan Djuric, leikmaður Hauka, uppvís að kasta bjórdós að knattspyrnuvellinum úr stúku í leik Breiðabliks og Víkings. Ekkert var gert í þeim málum.

Í heildinni var 2023 því nokkuð dapurt en vonandi verður árið 2024 betra fyrir íslenska knattspyrnuaðdáendur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -