Bergsveinn Ólafsson er nýjasta gestur hlaðvarpsþáttar Sölva Tryggvasonar og ræða þeir félagar allt milli himins og jarðar í þættinum. Bergsveinn ræðir meðal annars þá gagnrýni sem hann hefur fengið en Bergsveinn hefur verið virkur þátttakanda í samfélagsumræðu á undanförnum árum meðal annars um karlmennsku. Hann gefur lítið fyrir þá gagnrýni sem hann hefur fengið fyrir þá umræðu.
„Ég er löngu kominn á þann stað að vita hver ég er og vita hverjum ég á að taka mark á. Mér er ekki sama um það hvað fólki sem ég treysti og virði finnst um mig, en er alveg laus við að láta það trufla mig hvað einhverjir lyklaborðsriddarar segja. Það var ákveðinn hópur sem fór alveg á límingunum þegar ég tjáði mig um karlmennsku fyrir ekki svo löngu. Ég átti að vera orðinn íslenskur Andrew Tate og bara stórskaðlegur maður. Ég tók þetta ekki inn á mig, enda veit ég alveg hver ég er og hvað ég stend fyrir. Ég stend við allt það sem ég segi og myndi segja þetta aftur í dag. Það er hæpið að ég væri á skólastyrk í háskóla sem er lengst til vinstri, valinn nýliði ársins og að stjórna rannsóknarstofu ef ég væri skaðlegur öfgamaður,“ sagði Bergsveinn við Sölva um málið.
„Þú þarft ekki stöðugt að reyna að muna hvað þú segir ef þú segir bara satt. Það getur vel verið að það mislíki það einhverjum, en þá veit fólk allavega hvar það hefur þig og það fylgir því mikið frelsi að vera heiðarlegur. Það er ákveðið ævintýri að þora að segja sinn sannleika opinberlega og sleppa tökum af því hvað fólki finnst um það. Það eykur líka líkurnar á því að þú festist inn í einhverri hugmyndafræði þar sem þú verður að hafa ákveðnar skoðanir í öllum málum og hættir í raun og veru að hlusta á þína eigin rödd. Samfélagið yrði mjög furðulegt og vont ef allir væru alltaf sammála.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Bergsveinn á heimasíðu Sölva.