Íbúi á höfuðborgarsvæðinu hringdi á lögreglu í gærkvöldi eftir að hann fann poka með hvítu dufti í fyrir utan heimili sitt. Lögregla fór á vettvang og sótti efnið sem verður efnagreint. Í hverfi 104 sinnti lögregla tveimur útköllum. Annað var vegna líkamsárásar en hitt vegna þjófnaðar þar sem starfsmaður verslunar taldi viðskiptavin hafa stolið veskinu sínu.
Karlmaður var handtekinn eftir að hann reyndi að hlaupa undan lögreglu. Við nánari athugun kom í ljós að hann dvaldi ólöglega hér á landi. Síðar um kvöldið var lögregla kölluð að fjölbýlishúsi þar sem einstaklingur hafði brotið rúðu í bræðiskasti. Hann hafði flúið af vettvangi í kjölfarið en lögregla telur sig vita hver var þar að verki. Þá sinnti lögregla reglubundnu umferðareftirliti og stöðvaði meðal annars ökumann sem ók á móti rauðu ljósi.