Svo virðist sem verið sé að framleiða og selja skyr í Rússlandi undir merkjum Ísey skyr, en í apríl 2022 hætti Ísey útflutning ehf. sem er systurfyrirtæki Mjólkursamsölunnar, framleiðslu á Ísey skyr í Rússlandi, í kjölfar innrásar landsins í Úkraínu.
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs er enn verið að framleiða skyr undir merkjum Ísey skyr í Rússlandi en í borgum á borð við Moskvu, V.Novgorod, Sochi og Kislovodsk er hægt að kaupa slíkt skyr. Í lýsingu á heimasíðu verslunarkeðjunnar Vkusville má sjá tvær týpur „Ísey skyrs“ sem er til sölu þar, segir í lauslegri þýðingu: „Hin fræga gerjaða mjólkurvara kemur frá Íslandi. Búið til úr nýmjólk og sérstakur forréttur sem gefur skyrinu rjómakennt áferð. Fyllingin, búin til með því að bæta við bitum af bökuðu epli, bætir bragðið af vörunni með krydduðum tónum af bakstri. Skyr er frábær valkostur við jógúrt og hentar vel í morgunmat og sem millimál.“ Hvergi koma fram upplýsingar um það hvar varan er framleidd. Í einni athugasemd á síðunnni segir Gala Lanskaya nokkur að varan sé framleidd í heimaborg hennar, V.Novgorod, af fyrirtækinu Lactis JSC.
Þá virðast fleiri tegundir skyrsins framleitt og selt í Rússlandi en hér fyrir neðan má sjá bæði hreint skyr og trönuberjaskyr, undir merkjum Ísey skyr. Eru þær keyptar í verslunarkeðjunni Perekrestok í borginni Kislovodsk, í desember síðastliðnum.
Í apríl 2022 birti Mjólkursamsalan yfirlýsingu frá systurfyrirtæki sínu, Ísey skyr sem hljóðaði svo:
Ísey útflutningur ehf. hefur rift leyfissamningi við rússneska félagið IcePro um framleiðslu og dreifingu á skyri undir merkjum ISEY-skyr fyrir Rússlandsmarkað. Ísey útflutningur ehf. hefur haft leyfissamninginn til skoðunar undanfarnar vikur vegna stríðsreksturs Rússlands í Úkraínu. Samningnum hefur nú verið rift og búið er að tilkynna ákvörðunina til forráðamanna IcePro í Rússlandi. Samhliða þessari ákvörðun hefur Kaupfélag Skagfirðinga dregið sig út úr eignarhaldi á félaginu IcePro. Því er ljóst að framleiðslu á skyri undir merkjum ISEY-skyr í Rússlandi verður hætt og þar með er engin starfsemi á vegum þessara fyrirtækja í Rússlandi. Í ljósi umræðna um sölu á Ísey skyri í Rússlandi er vert að taka fram að aldrei hefur verið flutt út skyr frá Íslandi til Rússlands. Árið 2018 hóf framangreint rússneskt félag, í eigu þarlendra aðila og áður Kaupfélags Skagfirðinga, framleiðslu og dreifingu á Ísey skyri í Rússlandi samkvæmt umræddum leyfissamningi sem nú hefur verið rift.
Mannlíf hafði samband við Ómar Geir Þorgeirsson, framkvæmdarstjóra Ísey skyr en í skriflegu svari segist hann koma af fjöllum hvað varðar sölu og framleiðslu á skyri undir nafni fyrirtækisins og að erfitt sé að fylgjast með þessu.
„Því er til að svara að þessar upplýsingar koma okkur verulega á óvart. Eftir að Rússar hófu stríðrekstur sinn þá var leyfissamningi við rússneska félagið IcePro rift þann 7. Apríl 2022. Nokkru síðar var lokað fyrir að þetta félag gæti fengið afnot af gerlinum okkar sem er nauðsynlegur til þess að hægt sé að framleiða ÍSEY skyr.
Ef einhver er að framleiða ÍSEY skyr í Rússlandi er það ekki gert með samþykki ÍSEY útflutnings ehf. og reyndar í óþökk okkar.
Nú háttar svo til í Rússlandi að við eigum erfitt með að framfylgja að ekki sé verið að framleiða skyr undir okkar merkjum, en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að þetta muni stöðvast ef rétt reynist.
En þakka þér fyrir ábendinguna, við munum afla okkur upplýsinga og bregðast við.“