Einar Þór Sigurðsson blaðamaður er nýjasti meðlimur blaðamanna á Fréttablaðinu og Hringbraut. Einar Þór var áður aðstoðarritstjóri DV, en þar hafði hann starfað frá árinu 2007 sem blaðamaður, fréttastjóri og undir lokin sem aðstoðarritstjóri. Einar mun gegna stöðu blaðamanns á vefmiðlunum.
„Það eru spennandi tímar í vændum hjá Torgi og ég er fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnið. Mitt hlutverk verður að taka þátt í frekari uppbyggingu á vefmiðlum Torgs, Fréttablaðinu og Hringbraut, undir stjórn Kristjóns Kormáks sem ég þekki vel frá því að við vorum saman á DV. Hjá Torgi starfa margir af bestu blaðamönnum landsins og það er heiður að slást í lið með svo öflugum hópi fólks,” segir Einar Þór.
Beðið er eftir úrskurði Samkeppnisstofnunar vegna samþykktar á sameiningu Torgs, sem rekur Fréttablaðið og vefmiðlana Fréttablaðið og Hringbraut og DV.
Fjöldi blaðamanna hafa fært sig frá DV yfir á Fréttablaðið í ár og síðasta ár, allt frá því að Kristjón Kormákur Guðjónsson fyrrum ritstjóri DV sagði upp og gekk til liðs við Hringbraut 1. apríl í fyrra. Hann er nú ritstjóri vefmiðla Torgs. Auk hans hafa Aníta Estíva Harðardóttir, Ari Brynjólfsson, Björn Þorfinnsson, Kristinn Haukur Guðnason og nú Einar Þór gengið til liðs við Torg af DV.