„Þeir börðu drenginn í andlitið og spörkuðu og slógu hann í kvið, nára og kynfæri,“ sögðu foreldrar 11 ára drengs sem var illa laminn árið 1990.
Drengurinn var barinn af tveimur öðrum piltum. Annar þeirra var 13 ára en hinn var 14 ára gamall. Fluttu þeir hann í strætó frá Hafnarfirði í Reykjavík þar sem þeir gengu í skrokk á honum. „Það var hræðilegt að sjá drenginn, bólginn og illa á sig kominn, auk þess sem hann kastaði þráfaldlega upp,“ sagði móðir hans í samtali við DV um málið en eldri drengirnir sátu fyrir þeim yngsta rétt hjá heimili hans. Hann á endanum að koma sér undan barsmíðunum á hlaupum
„Við fréttum ekki af þessu fyrr en um klukkan fimm,“ sagði móðir þess slasaða en hann hafði farið að heiman í hádeginu. „Þá hringdi í mig kona úr Stangarholti og sagði mér að drengir hefðu bjargað stráknum okkar á flótta undan eldri piltum. Hann hafði spurt á flóttanum hvort þeir vissu um stað þar sem hann gæti falið sig á. Þeir fóru þá með hann til konunnar í Stangarholtinu. Okkur brá mjög og fórum strax og sóttum drenginn. Við fórum þegar með hann á heilsugæslustöð í Hafnarfirði og heimilislæknir okkar skoðaði hann. Læknirinn sendi hann beint á slysadeild Borgarspítalans. Þar var drengurinn í rannsókn alveg frá klukkan sex og fram til miðnættis. Þá var farið með hann á Landakotsspítala.“
„Það er af og frá að hann sé slagsmálahundur og hann mætti jafnvel vera duglegri að verja sig,“ sagði móðir hans