Hafrannsóknarstofnunin breytti léninu sínu á dögunum í hafogvatn.is og þar á undan sameinaðist Landgræðslan og Skógræktin undir nafninu Land og skógur. Stefán Pálsson sagnfræðingur skrifaði færslu á Facebook þar sem hann gerir stólpagrín að þessari „tísku“.
„Fyrst þegar ég heyrði nýja nafn Hafró, „Haf og vatn“ gantaðist ég með að „Síld og fiskur“ hefði verið upptekið. Eftir því sem frá líður er ég samt farinn að taka þessa nýju tilraun (eða á maður að tala um tísku) í sátt. Ég er amk feginn að við séum ekki komin með enn eina helv*** „stofuna“ eða setrið.
Fólk tók vel í færsluna og hafa nú þegar komið nokkrar góðar tillögur að nýjum nöfnum fyrir stofnunum ríkisins.
Hallur nokkur stingur upp á nýju nafni fyrir Útlendingastofnun: „Útlendingastofnun: Inn og út.“
Héðinn stingur upp á nýju nafni fyrir Utanríkisráðuneytinu: „Bjarni Ben gæti farið fyrir ráðuneytinu: Stríð og friður.“
Sævar stingur upp á nýju nafni á Ikea, sem þó er ekki ríkisstofnun, ekki enn að minnsta kosti. „Ég hef lengi gælt við þá sjálfsögðu breytingu að Ikea taki upp nafnið Kjötbollur og húsgögn.“
Illugi Jökulsson gantast með: „Þú veist náttúrlega að ráðuneyti Svandísar heitir Kjöt og fiskur?“
Björn Leví Gunnarsson skaut fast á Katrínu Jakobsdóttur: „Forsætisráðuneytið væri „hitt og þetta.“ Lengra nafn væri „hitt og þetta, samt ekkert þegar allt kemur til alls.“
Þorlaug nokkur betrumbætir tillögu Píratans: „Hitt og þetta – ekkert að frétta.“
Jón Árni kemur svo með leiðréttingu: „Hafró heitir enn Hafrannsóknarstofnun. Svo var bara bætt við Rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna. Og skipt um lén. hafogvatn.is.“