Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Hefði getað verið „viljugri fótgönguliði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fljótlega eftir að Guðmundur Gunnarsson tók til starfa sem ópólitískur bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar varð hann þess áskynja að það voru ekki allir sáttir við ráðninguna. Samstarfið við meirihlutann einkenndist af tortryggni og óeiningu og lauk skyndilega eftir að honum voru settir þröngir afarkostir.

Spurður að því hvort hann aðhyllist þá sjálfur samsæriskenningar um að honum hafi verið bolað burt því aðrir vildu stólinn segist hann ekki getað svarað því. Hann viti bara að hann var umvafinn frábærum starfsmönnum bæjarins og fannst hann og þau standa sig vel.

En telur hann að þetta hafi raunverulega snúist um óánægju með frammistöðu hans? „Ég alla vegna gerði ekki nóg til að þau treystu mér. Ég upplifði mjög fljótlega að öllu var tekið með tortryggni. Það var þá væntanlega eitthvað í mínu fari eða mínum störfum, hvernig ég nálgaðist samskipti eða verkefni. Þetta er svo skrýtið starf. Þau eru mínir yfirmenn í raun, þegar öllu er á botninn hvolft, og mér mistókst að ná þeim á mitt band. En ég fann það mjög sterkt að ég náði til íbúanna.“

Guðmundur segir að mögulega hefði samstarfið gengið upp ef hann hefði verið „viljugri fótgönguliði“. „En ég vildi meina að við værum teymi, að ég mætti hafa skoðun. Að ég mætti selja þeim hugmyndir að verkefnum, hvernig við gætum fært sveitarfélagið áfram.“ Hann segir að eftir á að hyggja hefði verið gott ef væntingar beggja hefðu legið fyrir strax í ráðningarferlinu.

Sáttafundurinn fór fram á föstudegi. Á laugardegi hafði Guðmundur gert upp við sig að hætta og sunnudagurinn fór í að ganga frá starfslokunum og tilkynningu um þau. Fréttirnar komu íbúum verulega á óvart, að sögn Guðmundar. „Þetta er náttúrlega alveg fáránleg tímasetning; nokkrum dögum eftir náttúruhamfarir og tilfinningaboginn spenntur. Þeir segja að maður eigi ekki að taka stórar ákvarðanir við þannig aðstæður en við gerðum það. Við brutum þessa meginreglu og það var sárt. En ég fann alveg ofboðslega mikinn og jákvæðan stuðning og það styrkti mig í því að jú, ég hefði nú kannski bara verið að gera eitthvað rétt. Staðið mig. Það er alla vegna talsvert mörgum þarna úti sem finnst það.“

Var hann sjálfur farinn að efast? „Eftir fundinn á föstudeginum var ég gapandi hissa á því hvað þau voru óánægð,“ svarar Guðmundur. Hann segist hins vegar ekki hafa verið sá eini sem sætti harkalegum ásökunum um óhæfni; því hafi fleiri bæjarstarfsmenn setið undir af hálfu meirihlutans, meira að segja á opinberum vettvangi. Það hafi áhrif, þar sem bærinn og heilbrigðisstofnunin séu stærstu vinnuveitendurnir á svæðinu. „Ef þarna er dálítið hokið ástand og bogið bak og dálítið brotið, þá bara hefur það áhrif á andann í bænum,“ segir hann. „Ef við hlúum ekki að þessu og réttum þetta bak og valdeflum fólk þá hefur það dómínóáhrif út í samfélagið. En ef við erum pínu stoltari og keikari … Ef við nálgumst fjöreggið af virðingu og tölum um að fara í verkefnin á uppbyggilegan hátt í stað þess að tala um að eitthvað sé ógeðslegt eða einhver sé óhæfur eða sinni sínu … Ég kynntist engum hjá Ísafjarðarbæ sem ekki sinnir starfinu sínu. Þetta eru bara rætnar ásakair og rógburður á strangheiðarlegt fólk. Og mér sárnaði ofboðslega mikið og svo fann ég þetta á eigin skinni.“

- Auglýsing -

Nú eru það aðrir sem ráða för

Og það leiðir okkur inn í lokakaflann, og nýtt upphaf.

Að sögn Guðmundar urðu rógburður og dylgjur um störf hans og persónu til þess að fjölskyldan ákvað að flytja burt. Í stöðufærslu á Facebook talaði hann um „furðuskýringar“ sem hefðu grasserað í kjölfar starfsloka hans. „Ég ætla ekki að fara að endursegja það sem var sagt í mín eyru og gefa þeim sögum byr undir báða vængi en þetta snýst um mín störf, minn dugnað og mína persónu,“ segir hann um sögusagnirnar. Þessu geti hann ekki setið undir. Sagnamennina segir hann tilheyra litlum hópi en sennilega hefði farið betur á því að „bera karp okkar á torg,“ eins og Guðmundur orðar það, frekar en að skilja eftir tómarúm fyrir kjaftasögur að fylla. Hann ítrekar að fjölskyldan sé ekki að flýja; þau eiga enn heima á Ísafirði og hafa ekkert ákveðið um hvert leiðin liggur næst. Hjarta þeirra slái enn þá á Vestfjörðum.

- Auglýsing -

„Ísafjörður er frábær bær og okkur hefur liðið ofboðslega vel þar. Dætur okkar hafa aðlagast í skóla og það er frábært að ala upp börn á Ísafirði. Þessi klisja að þú eiginist tvo aukaklukkutíma á dag úti á landi er bara sönn. Klukkan fjögur eru allir búnir að öllu og þá áttu eftir helling af klukkutímum með fjölskyldunni. Ég elska að búa nálægt foreldrum mínum og þau hafa aldrei búið nálægt ömmu- og afabörnunum. Þú ert fimm mínútur að koma þér upp í fjall,“ segir Guðmundur. „En okkur líður ekki vel hérna lengur. Það breytir því ekki að þetta er yndislegt samfélag.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég viðurkenni alveg að ég var mjög sár og reiður fyrstu vikurnar en í dag er ég meira farinn að sjá tækifæri. Þetta er bara búið, þetta fór svona. Það er leiðinlegt, það hefði verið gaman að taka þátt í spennandi verkefnum og að koma Vestfjörðum betur á kortið. En það tekur annað við. Ég mun alltaf tala fyrir Vestfjörðum og mun áfram fara heim,“ segir Guðmundur um framhaldið.

En hvert leitar hugurinn núna? „Þegar við fluttum vestur var það vegna þess að ég fékk þetta starf og konan þurfti að finna nýtt starf og barnið að flytja sig um skóla. Nú er það þeirra að ákveða það og ég á að fylgja. Þetta var á mínum forsendum en nú er komið að þeim. Ef dóttir mín vill fara í gamla skólann er það mjög veigamikið atkvæði í ákvörðuninni. Ef konan mín vill fara aftur í það starf sem hún var í þá laga ég mig að því. Ég hef engar áhyggjur, okkur er engin vorkunn. Núna er ég að skoða sjálfboðastörf fram að páskum. Minn eini vandi er lítilfjörlegur lúxusvandi; ég er verkefnalaus. Og er það ekki það sem maður er stundum að óska sér? Ég höndla það hins vegar ekkert voðalega vel. Ég þarf einhverja áskorun.“

***

„Þetta eru töfrar“

Eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995 var erfitt fyrir utanaðkomandi að skilja hvernig fólk gat hugsað sér að búa áfram í bæjunum. Spurður að því hvaða tilfinningar hann hafi upplifað meðal heimamanna þegar stór flóð féllu að nýju á Flateyri og í Súgandafirði verður Guðmundur íhugull en svarar svo ákveðið:

Mynd / Önundur Pálsson

„Svona 200 manna samfélag … þetta er fjölskyldan þín. Þetta er miklu meira en fólkið í blokkinni. Þú þekkir fólk svo ofboðslega vel því það gegnir mörgum hlutverkum og er með alls konar hatta. Það er ekkert sem þú veist ekki um viðkomandi; þú þekkir styrkleika hans, veikleika hans, drauma hans og þrár, fortíð og jafnvel framtíð. Þið eruð ekki bundin blóðböndum en þið eruð bundin Flateyrarböndum eða Bolvíkingaböndum. Og þessi mýta sem birtist í Aldrei fór ég suður eftir Bubba Morthens; að fólk sem búi í fámennu þorpi sé þar af því að það þorði ekki burt … nýleg rannsókn hefur sýnt fram á að meirihluti þeirra sem búa í svona samfélagi hafa einmitt farið og komið aftur. Þeir vita alveg upp á hár hvað það er að búa annars staðar en hafa komið aftur í þetta samfélag.

Og núna er ég bara að lýsa venjulegum miðvikudegi í febrúar eða ágúst; ef það er engin kjörbúð og þig vantar sykur þá reddast það. Það er alltaf einhver sem getur eitthvað og kann eitthvað og það hlaupa allir undir bagga. Þú þarft aldrei að auglýsa það á samfélagsmiðlum að þú sért að fara að flytja og vantar hjálp. Þú bara byrjar að bera og það koma 20 aðrir og bera með þér. En svo þegar náttúrhamfarir verða þá … Þú þarft að upplifa þetta og vera partur af þessu þéttofna teppi til að átta þig á því hvað þetta er mikill frumkraftur. Hversu margir litlir þræðir ofnir saman geta verið sterkur kaðall. Og þú flytur ekkert í burtu og slítur þetta. Það koma allir heim þegar svona gerist.“

Það læðist bros fram á varir Guðmundar. „Ég fékk að vera örlítill þráður og ég gleymi þessu aldrei,“ segir hann. „Þetta er eins og að vera í ævintýramynd. Það bara birtist heil herdeild fram á fjallstoppnum. Þetta eru töfrar. Það koma allir heim.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -