Eftir árangurlausan fund vegna deilu Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá Ríkissáttasemjara í gær segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mikil vonbrigði að ekki gangi hraðar að ná samningum. Hann segir að allir við samningaborðið hafi sama markmið: „Að leggja mesta áherslu á hækkun lægstu launa og sérstaklega huga að mikilvægum kvennastéttum í umönnunarstörfum og leikskólum.“
Dagur segir í færslu á Facebook að honum þyki of mikil orka fara í að efna til átaka. „Ég vildi óska að sami kraftur væri settur í samningagerðina og ítrekað virðist fara í skeytasendningar í minn garð og samninganefndar borgarinnar.“
Í færslu sinni segir hann einnig að forysta Eflingar hafi reynt að skapa tortryggni um hvort tilboð Reykjavíkurborgar sé ekki það sama við samningaborðið og kynnt hefur verið opinberlega.
„Því er einfalt að svara: að sjálfsögðu. Tilboð borgarinnar myndi hækka meðal grunnlaun almennra starfsmanna á leikskólum úr 310 þús í 420 þús á mánuði. Ofan á þessar tölur koma álagsgreiðslur sem hafa verið greiddar á leikskólum og eiga að halda áfram og verða heildarlaun í lok samningstímans því 460 þús. á mánuði. Þetta er gott tilboð um mikla hækkun lægstu launa sem er hér með ítrekað. Fyrir ófaglærða deildastjóra á leikskóla úr röðum Eflingar myndu grunnlaun hækka í 520 þús. að meðaltali á mánuði. Með áðurnefndum álagsgreiðslum eru heildarlaun þessa hóps 572 þús á mánuði,“ útskýrir Dagur.
„Þetta er gott tilboð um mikla hækkun lægstu launa sem er hér með ítrekað.“
Sólveig segir Dag lofa öllu fögru í samningaherberginu
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafði greint frá því að hún væri bjartsýn á að hægt yrði að semja vegna ummæla Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í fjölmiðlum fyrir helgi. Hún sagði ummæli hans vera merki um að borgin sé tilbúin til að koma betur til móts við félaga Eflingar í þeirra kjarabaráttu.
Eftir árangurlausan fundinn hjá ríkissáttasemjara sagði hún svo tíma „fyrir leiki“ vera runninn út og bætti við að það væri leitt að Reykjavíkurborg skynji það ekki.“
Í tilkynningu Eflingar eftir fundinn var vísað í orð Sólveigar sem segir borgarstjóra hafa lofað öllu fögru í fjölmiðlum en það sem gerist í samningaherberginu sé ekki í neinu samræmi við það.