„Tíminn er runninn út fyrir leiki og það er miður að Reykjavíkurborg skynji það ekki.“ Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í tilkynningu sem Efling sendi frá sér, eftir árangurslausan samningafund samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara í dag.
Í tilkynningunni segir að „svo virðist sem samninganefnd borgarinnar og borgarstjóri tali í kross, með þeim afleiðingum að upplýsingagjöf er ekki skýr og ómögulegt að leggja mat á raunverulega stöðu deilunnar.“
Er ennfremur vísað í orð Sólveigar Önnu sem segir borgarstjóra hafa lofað öllu fögru í fjölmiðlum en það sem gerist í samningaherberginu sé ekki í neinu samræmi við það. Innkoma borgarstjóra hafi einungis verið til að afvegaleiða félagsmenn Eflingar, fjölmiðla og almenning. Ótímabundið verkfall og barátta Eflingarfélaga muni því halda áfram.