Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og meðreiðarsveinar hans hafa fundið upp hreint snilldarlega leið til að þurfa ekki að refsa Ísraelum fyrir stríðreksturinn í Palestínu með því að reka þá úr Eurovision líkt og gert var við Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu. Í gær var tilkynnt að Íslendingar myndu halda forkeppnina með pompi og prakt og síðan yrði ákveðið í samráði við sigurvegarann hvort Ísland mætti til leiks í Malmö í Svíþjóð í vor ásamt Ísraelum.
Mörður Áslaugarson, stjórnarmaður hjá RÚV, er líkt og margir aðrir ósáttur vegna þessa yfirklórs og segir stofnunina hafa ákveðið að firra sig allri ábyrgð hvað varðar þátttöku Íslands. Hann sakar stjórnendur um hugleysi og segir þetta útspil koma sér vel fyrir stjórnina og stjórnendur þar sem ábyrgðinni sé skellt á listafólk. Það verður því væntanlega beiskur bikar fyrir þann sem vinnur forkeppnina hér heima og sætir ábyrgð fyrir hvort heldur að fara eða vera.