Viðbragðsaðilar á vestanverðu Suðurlandi eru nú við störf á vettvangi umferðarslyss á Mosfellsheiði skammt vestan Grafningsvegar efri. Slysið var tilkynnt neyðarlínu kl. 10:33 en rúta með 23 einstaklingum um borð mun hafa oltið þar. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.
Þar segir að sjúkraflutningamaður sem staðsettur er yfir dagtímann á Þingvöllum hafi farið strax á vettvang. Fljótlega var ljóst að ekki væri um alvarlegt slys að ræða.
„Engu að síður var viðbragði haldið enda kalt á vettvangi og nauðsynlegt að koma fólki í skjól. Það verður flutt í þjónustumiðstöðina á Þingvöllum en rekstraraðili rútunnar er að senda annan bíl eftir þeim sem ekki verða fluttir með sjúkrabíl til skoðunar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um þjóðerni fólks eða ferðalag þeirra,“ segir í færslunni.