Nokkurrar hysteríu gætti fyrir leiðtogafund Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhail Gorbachev, forseta Sovíetríkjanna, árið 1986, enda ærin ástæða til í ljósi þess að þar hittust valdamestu menn heims þess tíma.
Leyniþjónustur frá báðum áttunum fylgdust vel í aðdraganda leiðtogafundarins og pössuðu upp á að ekkert kæmi upp á. Nokkru fyrir fundinn, sem haldinn var í október 1986, barst yfirvöldum á Íslandi ábending frá rússnesku leyniþjónustunni, KGB, um að nokkrir líbískir hryðjuverkamenn ætluðu sér að koma til Íslands fyrir leiðtogafundinn mikilvæga. Samkomulag var gert á milli lögregluyfirvalda hérlendis við leyniþjónustur Bandaríkjanna og Rússlands, um upplýsingagjöf í tengslum við meinta hryðjuverkahættu og Flugleiðir jók gæslu á sínum viðkomustöðum. Þar sem engar fréttir birtust um hryðjuverk í tengslum við fundinn, er nokkuð víst að tekist hafi að koma í veg fyrir för þeirra til landsins, nú eða að upplýsingarnar hafi verið rangar eða þeir hætt við.
DV skrifaði um málið á sínum tíma en þar var meðal annars rætt við Böðvar Bragason, þáverandi lögreglustjóra, sem var nokkuð brattur á að heyra. Hér fyrir neðan má lesa þá frétt:
Viðvörun fra rússneskum leyniþjónustumönnum í gærmorgun: Líbýskir hryðjuverkamenn á leið til landsins – hert eftirlit á öllum viðkomustöðum Flugleiða erlendis
Snemma í gærmorgun gerðu rússneskir leyniþjónustumenn íslenskum yfirvöldum viðvart um að 2-3 líbýskir hryðjuverkamenn væru að reyna að koma til landsins. Öllum æðstu yfirmönnum öryggismála í tengslum við leiðtogafundinn var þegar gert viðvart og Flugleiðir sendi skeyti á alla skrifstofa sinna erlendis þar sem starfsfólki var tjáð að það mætti búast við hertu eftirliti á öllum viðkomustöðum félagsins. „Því er ekki að neita að sett hefur verið í gang athugun á einstökum tilvikum í þessa veru,“ sagði Böðvar Bragason, lögreglustjóri, aðspurður. „Við höfum haft gott samstarf um öryggismál við Rússa og þeir láta okkur vita ef ef þeir frétta eitthvað. Það sama má segja um Bandaríkjamennina og við látum þessa aðila einnig vita ef við komumst að einhverju misjöfnu.“
– Er búist við að hryðjuverkamennirnir reyni að komast til landsins frá Evrópu? „Ferðaleiðir þessara manna liggja að sjálfsögðu um Evrópu þegar þeir koma þarna að sunnan. En ég legg á það áherslu að við stöndum í báðar fætur hvað varðar eftirlit með þeim útlendingum sem koma til landsins, jafnt nú sem endranær,“ sagði Böðvar Bragason.