Björgunarsveitir á Suðurnesjum björguðu sjómanni á litlum fiskibát í nótt rétt norðan við Voga á Vatnsleysuströnd, eftir að báturinn varð vélarvana og rak hratt að landi.
Björgunarsveitir af Suðurnesjum ásamt togaranum Sóley Sigurjóns GK náðu að koma taug yfir í bátinn og draga hann frá við vægast sagt ömurlegar aðstæður.
Í færslu á Facebook-síðu Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík segir að björgunarsveitarmaður hafi farið um borð í bátinn þar sem sjómaðurinn á fiskibátnum var orðinn örmagna vegna sjólags og vinnu við að draga taugar á milli báta.
Farið var með bátinn til Hafnarfjarðar.
Myndbandið hér fyrir neðan er tekið um borð í björgunarbátnum Hjalta Frey frá Grindavík og nær vonandi að gefa fólki smá innsýn í aðstæður næturinnar.