Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0.9 C
Reykjavik

Árni sparkar í Össur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nóvember, árið 1995, átti sér stað uppákoma á þingi sem hefði sennilega sómt sér betur í farsakenndu leikriti á fjölum annars konar leikhúss. Össur Skarphéðinsson, þáverandi þingmaður og fyrrverandi ráðherra, stóð þá í pontu og lét gamminn geisa á sinn landskunna hátt.

Segir sagan að einhverjir skruðningar hafi heyrst í þingsal og hafi Össur þá haft á orði að honum heyrðist sem háttvirtur þingmaður, Árni Johnsen, væri að hrista höfuðið. Hló þá þingheimur dátt að hnyttni Össurar, ef frá er talinn einn þingmaður, áðurnefndur Árni Johnsen.

Eins og í öllum góðum, farsakenndum leikverkum lauk málinu ekki þarna, þótt Össur hafi reyndar lokið sínu máli. Árni beið færis, kom síðan aftan að Össuri, kleip hann í annað eyrað og sneri duglega upp á. Össur ku ekki hafa kippt sér upp að nokkru ráði við þennan gjörning kollega síns og kveinkaði sér ekki undan þessari lymskulegu atlögu.

Össur Skarphéðinsson

Árni taldi sennilega ekki nóg að gert því hann átti eftir að sækja að Össuri aftur áður en langt um liði. Fékk hann kjörið tækifæri þegar hann sá að Össur var á leið niður stiga þinghússins, samferða Jóni Baldvini Hannibalssyni.

„Neyttu meðan á nefinu stendur“ segir máltækið og þarna var komið kjörið tækifæri til að kenna Össuri lexíuna. Árni Johnsen kom aðvífandi og lét sparkið vaða, kannski líkt og vítaskytta í knattspyrnuleik. Sannaðist þarna að Árni var engin óskytja því sparkið rataði í afturenda Össurar og segir sagan að sá síðarnefndi hafi verið fljótari niður stigann en hann ætlaði sér.

Að sögn urðu nokkrir þingmenn vitni að þessari leifturárás Árna og spurðu Össur hvort hann hygðist ekki kæra atlöguna til forseta Alþingis. Össur hefði svarað að bragði, eitthvað á þá leið að hann hygðist ekki elta ólar við mann sem hefði allt sitt líf verið á greindarstigi sauðkindarinnar. Síðar sagði Árni Johnsen að umfjöllun fjölmiðla um málið hefði verið „móðursýki […], hreint blaður og rugl. Við Össur vorum bara að gantast“.

- Auglýsing -

Grínið tekur greinilega á sig ýmsar myndir á Alþingi og sýnir að andinn þar, þar sem háttvirtir og hæstvirtir makka um málefni lands og þjóðar, getur oft og tíðum orðið lævi blandinn. Geta hnúturnar sem þingmenn kasta hver í annan æði oft framkallað bjölluslátt frá forseta Alþingis, sem þarf þá að bregða sér í hlutverk leikskólafóstru og fá „krakkana“ til að haga sér skikkanlega. Hvort búið sé að bera saman greindarstig þingmanna og sauðkindarinnar er ekki vitað.

Baksýnisspegill þessi birtist áður hjá Mannlífi 21. október 2021 og var í einu af tölublöðum Mannlífs um sama leyti.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -