Miðvikudagur 22. janúar, 2025
1.3 C
Reykjavik

Allir vissu en enginn gerði neitt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir því sem næst verður komist kom mál fjölskyldu Ernu Marínar Baldursdóttur fyrst á borð yfirvalda þegar brot stjúpans gegn systur Ernu var tilkynnt til lögreglu þegar Erna er fimm ára.

Elstu gögn sem hún hefur komist yfir um eigin mál eru frá 1987, þegar hún var 9 ára gömul. Þá var hún lögð inn á St. Jósefsspítalann með kviðverki en rannsóknir skiluðu litlu. Erna man hins vegar vel eftir veikindunum:

„Þarna vorum við nýkomin úr útilegu þar sem hann braut á mér og það var stanslaust fyllirí og vanrækslan algjör. Ég í blautum fötum og kalt. Ég fékk svakalega háan hita og lá bara í sófanum. Ég man eftir því að ég var marga daga ein og það var enginn heima til að sinna mér.“ Hana minnir að þetta hafi verið á sama tíma og lögregla var kölluð til vegna einhverra átaka á milli stjúpans og annars manns. Hann misnotaði Ernu enn á þessum tíma og hún man að hafa þarna í fyrsta sinn sagt opinberum aðila, einhverjum á spítalanum, fyrst frá. Þess er þó hvergi getið í gögnum.

Og talandi um gögnin: þau eru fá og götótt en sláandi engu að síður. Flest þeirra eru frá Hafnarfjarðarbæ en þau ná aðeins aftur til 1991, þegar Erna var orðin 13 ára, og urðu til í tengslum við „hegðunarvandamál“ Ernu. Eflaust eru fleiri gögn til, um systur hennar, en Erna fær ekki aðgang að þeim og ekki hennar að rekja þá sögu.

Það sem er sjokkerandi er ekki síst að af pappírunum frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar að dæma var til staðar vitneskja um aðstæður á heimilinu; m.a. um að þar hefði átt sér stað kynferðisofbeldi og að þar byggju engu að síður enn börn á ýmsum aldri. Ekkert var hins vegar gert fyrr en Erna fór í uppreisn og varð „vandræðaunglingur“.

Í nótum starfsmanna barnaverndarnefndar er m.a. staðfest að bæði móðir og stjúpfaðir Ernu hafi átt við áfengisvandamál að stríða, að hann hafi leitað á systur hennar og að bæði hann og móðir Ernu hafi vitað að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi af stjúpsystur sinni. Í gögnunum er einnig komið inn á brotin gegn systur Ernu sem kölluð eru „sifjaspell“, og segir m.a. í nótu starfsmanns barnaverndarnefndar eftir viðtal við móður Ernu: „Rætt um sifjaspellin gagnvart X, kæruna og hugsanleg áhrif. [Stjúpinn] hefði farið í viðtöl, hann hefði ekki verið dæmdur en þetta hefði verið mikið áfall fyrir sig. [Móðirin] var nokkuð viss um að hann myndi ekki fremja sifjaspell framar og taldi hann ekki hafa gert það.“

„Svo virðist að hún sé frekar afskipt heima fyrir og móðirin heimsótti hana lítið og spurðist lítið fyrir um hana hér inni á deildinni.“

- Auglýsing -

Vitnað er um mikla samskiptaörðugleika á heimilinu og ofbeldi þegar Erna og systir hennar voru yngri. Fram kemur að Erna hafi upplifað sig milli steins og sleggju þegar kom að foreldrum hennar en í gögnunum er að finna margar staðfestingar þess efnis að samskipti þeirra hafi ekki verið góð, ekki síst af hendi móður Ernu. Ein stærsta gloppan í gögnunum varðar hins vegar fyrsta og ef til vill eina fundinn sem stjúpi Ernu mætti á, auk Ernu, systur hennar og móður. Fram kemur í nótu að fundurinn hafi staðið í þrjá tíma og að hann hafi hafist á umræðu um hina meintu nauðgun en meira stendur ekki í nótunni. Annaðhvort var skýrsla um fundinn aldrei kláruð eða hún hefur farið forgörðum. Hún hefði verið forvitnilegur lestur, svo ekki sé meira sagt.

Ljóst er á gögnunum að Erna átti á þessum tíma, frá 1991 til 1994, við margþætt vandamál að stríða. Hún upplifði öryggisleysi á heimili sínu, bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt, þannig að sá á henni. Árið 1992 lá hún inni á Barnaspítala Hringsins í um mánuð vegna líkamlegra veikinda en þá sagði í umsögn læknis: „Sennilegt er að mikið af hennar kvörtunum séu af psykosomatiskum toga eins og reyndar var hér við fyrri innl. Svo virðist að hún sé frekar afskipt heima fyrir og móðirin heimsótti hana lítið og spurðist lítið fyrir um hana hér inni á deildinni.“

Lestu umfjölluna alla í Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -