Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

„Reikningarnir eru kannski ekki margir en öll launin mín fara í þá“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elzbieta Kolacz er 44 ára gömul og hefur starfað á leiksskóla í tæplega 13 ár. Hún hóf nám á Leikskólabrú, námi sem kennt er í Keili í Reykjanesbæ, en hætti eftir að kom í ljós að tveggja ára nám myndi aðeins skila henni um 5.000 kr. launahækkun á mánuði.

„Ég flutti til Íslands frá Póllandi og byrjaði á að þrífa hótel, þar var ég í sex ár. Síðan fór ég í fæðingarorlof í eitt ár. Þegar ég fór að leita að vinnu eftir fæðingarorlofið þá benti vinkona mín mér á að sækja um vinnu á leikskóla,“ segir Elzbieta. „Ég vildi læra íslenskuna betur og vinkona mín sagði að vinnan á leikskólanum væri góð leið til þess og svo var þetta tækifæri til að fá pláss fyrir barnið mitt. Ég elska líka börn.“

Elzbieta, sem er með stúdentspróf frá Póllandi, byrjaði að vinna í eldhúsi á leikskóla, en síðan var henni boðið að vinna inni á leikskóladeild þar sem hún hóf starf sem leiðbeinandi. Í dag er hún svokallaður starfsmaður 2.

Sjá einnig: „Fólk á að geta haft svigrúm með launin sín, sama hvaða starfi það gegnir“

Tveggja ára nám skilar litlu í launaumslagið

Elzbieta hefur tekið námskeið, fyrst voru það íslenskunámskeið til að ná betri tökum á tungumálinu. „Fyrir ári síðan reyndi ég að fara í Leikskólabrú en það var svolítið erfitt fyrir mig bæði vegna tungumálsins og eins vegna þess að námið var kennt á laugardögum en ég var þá í aukavinnu og þetta gekk ekki vel. Ég byrjaði en hætti,“ segir Elzbieta. „Ég kannaði líka hvað launin mín myndu hækka eftir að náminu var lokið og fékk þau svör að það væri kannski 5.000 krónur brúttó. Og það var eiginlega ekki möguleiki fyrir mig að halda áfram námi sem tekur tvö ár. Vinkona mín ákvað samt að láta sig hafa það og hélt áfram.“

- Auglýsing -

Elzbieta á mann og einn son sem er 14 ára. Maður Elzbietu vinnur einnig hjá Reykjavíkurborg og í láglaunastarfi. Elzbieta vinnur frá kl. 9-17 og fyrir þann vinnutíma fær hún útborgaðar 270-280 þúsund krónur. „Stundum er smávegis yfirvinna eða eitthvað auka,“ segir hún.

Fjölskyldan er í leiguhúsnæði, sem þau greiða 230.000 krónur fyrir, áður voru þau með bílalán sem er uppgreitt. „Svo eru það bara þessir venjulegu reikningar; rafmagn, matur í skólanum og slíkt. Reikningarnir eru kannski ekki margir, en öll launin mín fara í þá,“ segir Elzbieta. „Ég er í sjúkraþjálfun og hana þarf að greiða og nýlega fór ég í hnéaðgerð.“

Fjölskyldan leyfir sér ekki mikið. Sonurinn er í skátunum og Elzbieta segir að á nokkurra mánaða fresti þá fari þau í bíó. „Stundum förum við í IKEA og borðum, stundum vill sonurinn panta sér pizzu. Stöku sinnum biður hann um eitthvað meira og þá verð ég að segja, „því miður, það verður að bíða þar til í næsta mánuði.“ Við erum eiginlega alltaf á núlli, stundum er smávegis peningur eftir, en aldrei nóg til að spara eitthvað,“ segir Elzbieta og bætir við að af og til finni hún sér aukavinnu þegar spara þarf fyrir ferð. Þá leyfa þau sér að fara í frí til Póllands til foreldra sinna, en ekkert annað því slíku hafa þau ekki efni á.

- Auglýsing -

„Stundum þegar er til smávegis peningur þá leyfum við okkur eitthvað, eins og um daginn þegar við keyptum okkur örbylgjuofn. Á nokkurra mánaða fresti þá getum við kannski leyft okkur að kaupa eitthvað.“

Launaseðill Elzbietu.

Lesa má nánar um málið í Mannlíf.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -