Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0 C
Reykjavik

Ísbjarnaárásin á Eldjárnsstöðum – Þegar hundar björguðu ábúendum og guldu með lífi sínu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frostaveturinn mikla 1918 var einn af bændunum á Eldjárnsstöðum á Langanesi á Norðurlandi Eystra, Kristján Jónsson að sækja vatn í brunn, örlítinn spöl frá þríbýlinu. Þegar Kristján var kominn álengdar tók hann eftir hvítri skeppnu á stærð við væna kind, að því er honum sýndist í fyrstu. Þegar skepnan tekur eftir honum gerir hún sig breiðari og hleypur til móts við bóndann og sér þá Kristinn að um hvítabjörn er að ræða. Tekur hann þá á sprett að bænum með björninn á hælunum.

Nágranni bóndans, Hólmsteinn Helgason frá Ásseli skrifaði frásögn af bardaga ábúendanna á Eldjárnsstöðum við hinn hvíta vágest og sendi Morgunblaðinu. Frásögnin er hin æsilegasta og sannar svo sannarlega að hundurinn er besti vinur mannsins en alls létust tveir hundar í bardaga við björninn. Lýsingu Hólmsteins má lesa hér að neðan:

Ágengur isbjörn.

Marga hér um slóðir hefir furðað á því atviki, er hér fer á eftir, og sökum þess, að fleirum mun þykja þetta tíðindum sæta, skal reynt að skýra það í sem fæstum, en þó sönnustum, orðum að kostur er, svo blöðin og almenningur fái það svo óbrjálað sem unt er, því sögum sem þessari hættir við misþyrmingu og aflögun á langri leið, og hefi eg þegar töluvert orðið var við það, bæði í gegnum síma og mannlega fréttaþræði. Aftaka stórhríðar hafa gengið hér undanfarna tíð, — hófust 3. jan. — með þeim aftaka frost-grimdum, að elztu menn muna varla slíkt, og það þeir, sem vel mundu frostaveturinn mikla 1880—1881. Þegar loks birti upp, 14. jan., var orðin hafþök af ís hér fyrir Langanesi norðanverðu. Föstudaginn 18. jan. gekk einn bóndinn á Eldjárnsstöðum hér í sveit — því þar er þríbýli — til brunns, sem er örlítinn spöl frá bænum, með tvær skjólur, eftir vatni. Þá hann er kominn rúmlega út af hlaðinu, sér hann framundan sér hvíta skepnu á stærð við væna kind, er samstundis teygir sig í sundur, og fer þá skjótt meira fyrir dýrinu, þar sem það kastast á móti manninum.

Bóndi þekkir þegar skepnuna, og tók á rás undan til bæjar. En sem hann er kominn nálega að bæjardyrum, er dýrið á hælum honum, en hann tekur þá það til bragðs að þeyta skjólunum afturfyrir sig, ef ske kynni að dýrið stöðvaðist við það, stökk svo inn úr dyrunum, æpandi öðrum til viðvörunar, og hafði ei tóm til að loka bænum á eftir sér, svo dýrið stökk þar inn á eftir honum. En þá bar tvent til að hann komst undan, bæði það, að hundar tveir, er í bænum voru, tóku á móti dýrinu, og það snérist að þeim, og að bóndi gat skotist í hliðargöng úr bæjardyrum og þaðan til baðstofu sinnar, sem er á lofti. En annar hliðargangur lá og úr bæjardyrum og til íbúðarhúss annars bónda, sem er á gólfi, með geymslulofti yfir. Inn í þenna gang barst leikurinn milli bangsa og seppanna; en inni í þessu húsi var stúlka —• systir bóndans þar — sem ekki var komin á fætur — því þetta bar við árla dagsins. — Hún heyrði ópið í bóndanum er hann fór inn, og atganginn frammi, og datt strax ísbjörn í hug; snaraðist fram úr rúminu og fór fáklædd upp á loftið yfir húsinu. Dýrið ruddist inn í húsið þar sem stúlkan áður var, en þá skauzt hún fram til bóndans, sem fyrst varð fyrir dýrinu, Kristjáns Jónssonar, snaraði yfir sig jakka af honum og brá sér til fjárhúsa í útjaðri túns, að láta pilta er þar voru að gegningu, vita tíðindin.

Þeir brugðu við, fjórir saman, og réðust til bæjar með stúlkunni, fóru þau upp á bæinn, því ekki þorðu þau í bæjardyrnar, af ótta fyrir að mæta bangsa þar. Þau hafa skamma stund á bænum dvalið er þau sjá bangsa stinga hausnum út um rúðu á glugga, á hinu áður umgetna baðstofuhúsi, og í sama bili koma allan út um gluggann, því hann var á hjörum og lét því undan er á hann var ýtt. Stúlkan tók þá til fótanna inn og karlmennirnir á eftir. Einn þeirra, Jónas bóndi Aðalmundarson, bróðir stúlkunnar, skall í kvosinni fyrir fætur bangsa, sem þar var kominn. En með piltunum, er voru í húsunum, var stór hundur og vel vitiborinn, sem stökk á bangsa, er hann ætlaði að ráðast að manninum.

Með aðstoð hinna komst bóndi fljótt á fætur og inn yfir þröskuldinn, síðan lokuðu þeir bænum; en bangsi drap seppann tafarlaust, studdi síðan með hramminum á bæjardyrahurðina, svo að kengur, sem loku hurðarinnar var skotið í, drógst út, og hurðin opnaðist. En þar sem bangsi sá engan í dyrunum, sneri hann þar frá og fór upp á bæinn nasandi úr slóð fólksins, sem áður er um getið, en hafði auðvitað ekkert upp úr því. Gluggi, á loftbaðstofu Kr. Jónssonar bónda, með fjórum rúðum smáum, velt fram á hlaðið; er á að geta rúmlega 4 álna (2,50 m.) hæð upp í hann af hlaðinu, en nú var þar um álnar þykkur snjór. Þaðan hefir víst bangsi heyrt mannamál, því að þar var fólkið saman komið; reisti hann sig þar á hlaðinu, leggur framhrammana upp í gluggakistuna og hugar inn, og það segja þeir, er horfðust þá í augu við hann, að hefði verið ófrýnileg ásýnd, en inn hefir hann að líkindum eigi treyst sér að smjúga sökum hæðarinnar og ef til vill smæddar gluggans; sneri því að hræinu af dauða hundinum, dró það austur fyrir bæinn og tók að stýfa bráðina. Inni í bænum var aftur unnið að því að þrífa til byssur, er bæði voru ryðgaðar og frosnar á geymslulofti, því að um þessar mundir er ekki mikið í þau verkfæri að láta, og eigi heldur margt að skjóta í þessum – harðindum.

- Auglýsing -

Loks er verkfærin voru komin í lag, var hægt að láta bangsa verðskuldaðan greiða í tó. Eigi gekk það samt, að öllu búnu, vel, að leggja bangsa á eyrað. Maðurinn, sem átti að skjóta hann, — Jón Jóhannesson — fór upp á bæinn, og þaðan upp á baðstofustafn, þann sem bangsi var undir, að snæðingi. Þaðan voru um 3 metrar til jarðar, svo eigl var hægt fyrir bangsa til skjótrar aðsóknar, enda kom sér það betur fyrir manninn, því tvívegis klikkti byssan áður en úr henni gekk, og bangsi hné með sundurskotinn heila, ofan á hálf étinn hundsskrokkinn. En það sagði skyttan, að bangsi hefði staðið upp og litið all-ófrýnlega til sín og fitjað drjúgan upp á, á meðan byssuhaninn var að hamra á hvellhettunnl þarna upp yfir honum.

En er farið var að gá í húsið, sem bangsi dvaldi lengst í, var þar ekki alt með kyrrum kjörum; hann hafði brotið þar lampa, drukkið mjólk úr skjólu, er nýkomin var úr fjósi, og etið mat sem húsfreyja var búin að bera inn handa piltum sínum. Þetta alt dvaldi dýrið, meðan stúlkan — Jóhanna Aðalmundardóttir — sótti liðið í fjárhúsin. En annar hundurinn, sem fyrst réðist á bangsa, — sá stærri og sterkari, — drapst samdægurs, skömmu á eftir bangsa, en hinn liggur í sárum. Bjargaði sér með því að skríða upp undir rúm inni í húsinu og liggja þar, þar til alt var um garð gengið. Dýr þetta var 1,63 metrar á lengd, og vóg (kjötið aðeins, án hauss og allra innífla) 52 kg. Það var mjög magurt, og garnir allar tómar nema örlítið í endaþarmi. Bendir það alt á að dýrið hafi um langan tíma Iítið eða ekkert haft til matar, því björg er engin á svo snemmkomnum íshroða sem þessum.

Vafalaust hefir dýr þetta verið mannskætt, þótt slíkt sé eigi algengt með þau, þá getur hungrið sorfið svo að, að þau ráðist á alt; hlýfi þá ekkl mannlnum heldur. Atburður þessi er ritaður nákvæmlega eftir sögusögn heimilisfólksins á Eldjárnsstöðum og munnlega staðfestur af því á eftir.

Ásseli í janúar 1918. Hólmsteinn Helqason.

- Auglýsing -

Baksýnisspegill þessi birtist áður þann 27. apríl 2023.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -