„Mér finnst þessi niðurstaða mjög döpur,“ segir Einar E. Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda um þá staðreynd að eftir fimm ár tekur gildi algjört bann við loðdýrarækt til skinnaframleiðslu í Noregi.
Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur undanfarna daga fjallað um þær bætur sem norsk stjórnvöld hafa samþykkt að greiða loðdýrabændum sem er gert að hætta starfsemi fyrir 1. febrúar árið 2025. Ekki er ljóst hversu há upphæðin verður en í frétt NRK er áætlað að hún verði í kringum 1,6 milljarðar norskra króna, sem gerir um 22 milljarða íslenskra króna.
Í samtali við NRK vildi landbúnaðarráðherra Noregs, Olaug Bollestad, lítið gefa upp um bæturnar sem greiðast til norskra loðdýrabænda. Upphæðin mun skiptast á milli um 170 loðdýrabænda.
Í janúar 2018 setti vinstri flokkurinn í Noregi þau skilyrði fyrir þátttöku í nýrri ríkisstjórn að loðdýrarækt til skinnaframleiðslu verði bönnuð þar í landi frá árinu 2025.
Að mati Einars er „dapurlegt“ að flokkurinn hafi fengið sínu framgengt. „Loðdýraræktun, eins og annar búskapur í Noregi, samanstendur af litlum og vönduðum framleiðslu einingum. Í Noregi hefur verið mjög vönduð og góð skinnaframleiðsla í næstum 100 ár. Ég hefði frekar viljað bann af þessu tagi í löndum þar sem ekki eru í gildi dýraverndunarlög, eða aðbúnaður þannig að ekki er sómi af,” segir Einar.
Hann bætir við: „Loðdýrarækt er í grunnin mjög umhverfisvænn búskapur þar sem aukaafurðir frá matvælaframleiðslunni eru nýttar í fóðurgerðina og úr verða skinn og síðan skítur sem borinn er á tún. Við bannið verður einnig öll sú mikla fjárfesting sem sett hefur verið í greinina eins og hús, vélar og allt annað að mestu verðlaust eins og lífsafkoma þeirra sem hafa stundað búgreinin.”
Spurning hvaða búgrein þeir ná til næst
Loðdýrabændur á Íslandi hafa undanfarið staðið frammi fyrir vanda vegna lækkandi verðs minkaskinna á heimsmarkaði.
Aðspurður hvort að sú staðreynd að minni eftirspurn eftir loðfeld sé kannski merki um að greinin sé að syngja sitt síðasta og að staðan sem komin upp í Noregi sé dæmi um það sem koma skal svarar Einar neitandi.
„Þetta bann í Noregi hefur ekkert með rekstrarafkomuna að gera. Þetta eru bara pólitískar skoðanir á viðkomandi búgrein óháð aðbúnaði eða stöðu greinarinnar í Noregi. Þá er bara spurning hvaða búgreinar þeir ná til næst, verða það kannski kjúklinga-, svína eða kúabúin,” segir Einar.