Karl Sigurbjörnsson biskup er látinn.
Fjölskylda Karls Sigurbjörnssonar biskups tilkynnti andlát hans en hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík, 77 ára að aldri.
Karl er fæddur 5. febrúar 1947 í Reykjavík en hann var sonur Sigurbjörns Einarssonar, biskups og Magneu Þorkelsdóttur. Var Karl sjötti í röð átta systkina.
Karl var vígður til prests í Vestmannaeyjum þann 4. febrúar árið 1973 en 1975 var hann skipaður sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík og þjónaði þar í tæp 23 ár.
Árið 1998 var Karl kjörinn biskup Íslands en því embætti gengdi hann í 14 ár. Eftir það þjónaði hann um tíma í Dómkirkjuprestakalli.
Karl gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Þjóðkirkjuna, var kirkjuþingsmaður, sat í stjórn Prestafélags Íslands og var í kirkjuráði, áður en hann var kjörinn biskup yfir Íslandi. Þá var hann skipaður heiðursdoktor við Háskóla Íslands.
Þá var Karl duglegur í skrifum en eftir hann liggja fjölmargar bækur og rit, bæði frumsamin og þýdd.
Eftirlifandi eiginkona hans er Kristín Þórdís Guðjónsdóttir en saman áttu þau börnin Ingu Rut, Rannveigu Evu og Guðjón Davíð en barnabörnin eru átta.