„Hvað finnst ykkur um þetta? Þetta er lestrarefnið sem 6 ára dóttir mín kom með heim úr skólanum. Hvað hafa 6 ára börn að gera með að lesa svona sögur,“ spyr áhyggjufull móðir barns í Húsaskóla í Grafarvogi. Textinn sem umræðir er eftirfarandi:
„Sómi rændi gulli.
Sómi var líka vondur.
Hann átti beittan og stóran hníf.
Hann drap menn ef þeir vildu ekki láta hann hafa gull.“
Í samtali við DV.is kemur fram að móðirin óski nafnleyndar en hún bætir við:
„Hér er boðskapurinn til sex ára barna að ef þau fá ekki það sem þau vilja þá beitir maður ofbeldi til að fá það fram. Þessi bók fór rakleiðis í skólann aftur og ég ræddi við kennarann.“
Móðirin segir við blaðamann DV að hún hafi átt stuttlegt samtal við kennarann og látið vita hvað henni þætti. „Ég sagði við hana að ég kæri mig ekki um að dóttir mín sé látin lesa bækur með svona boðskap,“ segir konan og bætir við að kennarinn hafi sagst ætla að skoða málið.