Í vikunni hafa einhverjum nýbökuðum foreldrum borist bleyjur frá Libero í pósti. Dagur Bollason er einn þeirra en hann vekur athygli á þessari markaðsherferð á Twitter. Hann setur spurningarmerki við aðferð Libero á Íslandi sem honum þykir heldur ósvífin.
„Þetta fékk ég sent í pósti í morgun. Eru sem sagt markaðsfyrirtæki að skrapa saman kennitölum nýfæddra barna úr þjóðskrá og hafa svo upp á foreldrum til að senda þeim óumbeðið markaðsefni þó maður sé með rauðmerktan póstkassa? Er þetta ekki full langt gengið?“ skrifar Dagur í færslu á Twitter.
Í samtali við Mannlíf segist Dagur hafa sent skilaboð til Libero á Íslandi til að koma athugasemd sinni á framfæri. „Þau sögðust hafa skilning á þessu en þetta er tæknilega löglegt,“ segir Dagur.
Í lagi að senda á foreldra
Samkvæmt reglum Þjóðskrár Íslands er óheimilt að senda markpóst til barna, en heimilt er að senda markaðsefni til foreldra barna að því gefnu að þeir séu ekki skráðir á bannskrá.
Í Twitter færslunni tekur Dagur fram að hann sé með „rauðmerktan póstkassa“ en í athugasemd við færsluna er honum bent á að slík merking frá Póstinum dugi ekki til heldur þurfi hann að skrá sig á bannskrá sem Þjóðskrá heldur yfir þá sem vilja ekki að nöfn þeirra komi fram á úrtakslistum sem kann að vera beitt í markaðssetningarskyni.
Færslu Dags má sjá hér fyrir neðan:
Þetta fékk ég sent í pósti í morgun. Eru semsagt markaðsfyrirtæki að skrapa saman kennitölum nýfæddra barna úr þjóðskrá og hafa svo uppá foreldrum til að senda þeim óumbeðið markaðsefni þó maður sé með rauðmerktan póstkassa? Er þetta ekki full langt gengið? pic.twitter.com/xGVuQbewwz
— dagurbollason (@DagurBollason) February 11, 2020