Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, var í morgun dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Reyni Traustasyni, fyrrverandi ritstjóra DV og núverandi stjórnarmanni Stundarinnar, 300 þúsund krónur í miskabætur vegna ærumeiðandi ummæla sem hún lét falla um Reyni á Útvarpi Sögu þann 5. desember 2018. Auk þess var Arnþrúður dæmd til að greiða 1,1 milljón í málskostnað. Hvorki Reynir né Arnþrúður voru viðstödd dómsuppkvaðningu í dag er fram kemur í frétt Fréttablaðsins.
Arnþrúður hyggst sækja um leyfi til þess að áfrýja dómi til Landsréttar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmanni hennar, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni.
„Hér með er upplýst um að sótt verður um leyfi til þess að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2430/2019, Reynir Traustason gegn Arnþrúði Karlsdóttur, sem kveðinn var í dag 11. febrúar 2020, til Landsréttar,“ segir í tilkynningunni.
Ummæli Arnþrúðar um Reyni sem dæmd voru dauð og ómerk eru eftirfarandi: „Sjáðu bara eins og […] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?.“