Um 93 þeirra prósent kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfsins í fyrra voru beittar andlegu ofbeldi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í yfirliti Samtaka um kvennaathvarf um starfsemi athvarfsins á síðasta ári.
Flestar kvennanna sem leituðu þar skjóls og ráðgjafar nefndu fleiri en eina ástæðu. Samkvæmt yfirlitinu höfðu þannig 60 prósent kvennanna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og 54 prósent kvaðst hafa óttast um líf sitt einhvern tímann í sambandi sínu við ofbeldismanninn. Þá hafði rúmlega þriðjungur kvennanna orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Um 24 prósent kvennanna sem leitaði þangað höfðu verið teknar kyrkingartaki og jafn mörgum hafði verið hótað lífláti. Fleiri ástæður voru nefndar til sögunnar, þar á meðal ofsóknir af hendi eltihrellis, stafrænt ofbeldi og fjárhagslegt ofbeldi.
Alls dvöldu 144 konur og 100 börn í Kvennaathvarfinu til lengri eða skemmri tíma árið 2019, en þriðjungur kvennanna nefndi ofbeldi gegn börnum sem eina ástæðu þess að þær leituðu til athvarfsins. Mikill meirihluti gerenda voru karlar, eða 95 prósent, langflestir íslenskir.