Íbúar höfuðborgarsvæðins vöknuðu við hvíta jörð eftir nokkra góða daga með hlýju og jafnframt vorlegu veðri. Full ástæða er til að fara varlega í umferðinni. Samkvæmt Veðurstofu Íslands er spáð rigningu, slyddu eða snjókomu í dag. Breytilegri átt 8-15 metra á sekúndu. Dregur úr vindi með kvöldinu. Hiti verður á bilinu 0-4 stig.
Hugleiðingar veðurfræðings eru:
„Í nótt nálgaðist lægð úr suðri og miðja þessarar lægðar verður stödd yfir landinu í dag. Vindur blæs rangsælis kringum lægðarmiðjuna og áttin verður því breytileg, vindhraði yfirleitt á bilinu 8-15 m/s. Einnig má víða búast við einhverri úrkomu og í grófum dráttum má búast við rigningu eða slyddu nærri ströndinni, en meiri líkur á snjókomu inn til landsins. Hiti 0 til 4 stig.
Á morgun gera spár ráð fyrir að við verðum áfram inni í lægðarmiðjunni, en þegar lægðir eldast verður oft þrýstiflatneskja á stóru svæði í miðju þeirra og því er útlit fyrir rólegt veður um tíma. Seinnipartinn á morgun er síðan von á sendingu úr norðri, þá er spáð vaxandi norðanátt og fer að snjóa á norðurhelmingi landins.
Norðanáttin heldur síðan áfram á föstudag með éljagangi, en yfirleitt þurrt veður sunnan heiða.“