Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri HIV Íslands var gestur í síðdegisútvarpi Rásar 2 en hann er nýkominn heim frá Kenýa og ræddi við þáttastjórnendur um ferðina. Einar segir að ferðin hafi verið skemmtiferð en jafnframt til að skoða eigin tengsl við Kenýa, HIV og hjálparstarf.
Aðspurður um tengsl sín við Kenýa segir Einar Þór:
„Móðuramma mín, Margrét Hjálmtýrsdóttir, sem var mjög sérstakur karakter. Hún átti bara eitt barn, mömmu mína, sem dó ung. Við erum bara tvö á lífi af systkinunum; ég og systir mín. Afkomendur hennar. Það er kannski löng saga að segja frá henni, Margréti Hjálmtýrsdóttur, en í byrjun tíunda áratugarins fyrir rúmum 30 árum fór hún á stað að gefa eigur sínar til hjálparstarfa. Hún stendur fyrir byggingu á mjög stórri kirkju þarna úti í Pokot í Kenýa. Hún byggði líka skóla sem heitir Margrétarskóli og lagði vatnsleiðslur og gerði gríðarlega myndarlega hluti.“
Þáttastjórnendur spyrja hvers vegna Kenýa hafa orðið ofan á og Einar Þór telur tengslin fólgin í Kristniboðasambandinu hér heima.
Einar Þór útskýrir að ferðin sem var farin í byrjun janúar á þessu ári, hafi verið í samfloti með fólki frá Kristiboðasambandinu og hann hafi gist á þeirra vegum.
„Ég fékk að skoða kirkjuna og skólann sem Margrét amma lét byggja,“ útskýrir Einar og segir að minning hennar sé heiðruð. „Það var bara eins og hún væri í dýrlingatölu.“
Margrét Hjálmtýsdóttir lést árið 2006. Mikilli hátíðarmessu var slegið upp í kirkjunni, við komu Einars sem segir frá að hann hafi haldið minningaræðu um hana og verið leystur út með gjöfum.
Andleg upplifun
Einar Þór lýsir því hvernig náttúran, umhverfið og fólkið hafi haft á hann mikil áhrif og hann farið að hugsa. „Það var þannig með hana Margréti Hjálmtýrsdóttur, sem ég minnist í raun og veru sem ömmu minnar. Ég er búinn að fyrirgefa henni allt. Hún afskrifaði mig vegna þess að ég var hommi með HIV. Við töluðum ekkert saman síðustu tuttugu árin áður en hún dó – Því miður,“ segir Einar sem lýsir upplifuninni á að vera kominn til Kenýa.
„Hún gerði svo sannarlega gagn í sínu lífi. Mjög einstök kona og sterk. Mjög ákveðin og hörð. Mjög sjálfsörugg,“ segir Einar Þór bætir við að hún hafi kennt honum gríðarlega margt. Enda átt fjölskrúðaða ævi.
„Svo fyrir mig var þetta [innsk. blm. ferðin] ákveðið uppgjör,“ segir Einar Þór og lýsir því hvernig hún hafi sótt á hann í draumum og huga meðan hann var í ferðinni.